Skipverji um borð í súrálsskipi á Reyðarfirði, sem smitaður er af kórónuveirunni, var í dag fluttur með sjúkraflugi á Landspítala. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi.
Þar segir að tilefni flutningsins hafi verið viss versnun einkenna, og því þótti rétt að flytja hann til öryggis á sjúkrahús samkvæmt áður gerðri áætlun.
Ástand hinna níu skipverjanna sem einnig eru smitaðir um borð telst stöðugt. Þeir skipverjar sem ekki hafa greinst með smit munu skimaðir á morgun, en það er gert í þriðja sinn frá komu skipsins fyrir rúmri viku.