Í fyrirtækinu Íslenskri hollustu má sjá í hillum te, krydd, vínflöskur, berjasaft, þurrkuð söl og fjallagrös, og allt í afar fallegum umbúðum. Blaðamanni er boðið inn og fær strax smakk af dýrindis bláberjasafa sem rennur ljúflega niður. Eigandinn, Eyjólfur Friðgeirsson, stendur þar vaktina og slær ekki af þótt hann sé kominn hátt á áttræðisaldur, en fyrirtækið sérhæfir sig í sölu á íslenskum heilsuvörum búnum til úr úrvals hráefnum úr íslenskri náttúru.
Eyjólfur hefur komið víða við; hann bjó í Sovétríkjunum á námsárunum, var á sjó, stundaði fiskeldi, dvaldi í munkaklaustrum og hefur rekið fyrirtæki sitt, sem sífellt setur nýjar heilsuvörur á markaðinn. Eyjólfur talar af yfirvegun og ró, enda ekki að undra. Hann er nefnilega zen-búddamunkur.
„Ég fór mjög ungur að heiman og fór í skóla. Eftir menntaskólann og stýrimannaskólann fór ég árið 1967 í líffræðinám til Moskvu. Þetta var bara Sovét!“ segir Eyjólfur og neitar að hafa verið kommúnisti þegar hann fór þangað.
„En ég hef nú verið vinstrisinnaður í gegnum tíðina.“
Eyjólfur segir námsárin hafa verið dásamleg. Hann ber Rússunum vel söguna og segist hafa haft það gott, enda á fínum námsstyrk.
„Þetta er svo langt síðan. Á þessum tíma var ekkert hægt að hringja heim nema með erfiðismunum og bréf voru mánuði á leiðinni. Ég fór þangað einn, en konan mín, Bergþóra Einarsdóttir, kom svo seinna og var í nokkur ár en ég kynntist henni áður en ég fór út. Hún lærði rússnesku þarna og var svo lengi blaðamaður fyrir APN-fréttastofuna. Í Moskvu kláraði ég meistarapróf í líffræði með fiskifræði sem sérgrein,“ segir hann en hann bjó þar í sex ár og lærði þá reiprennandi rússnesku.
„Það var allt kennt á rússnesku. Það vildi mér til happs að þá var nýkomin út rússnesk-dönsk orðabók. Ég þurfti bara að setja undir mig hausinn, læra rússnesku og þræla mér í gegnum námsbækurnar með hjálp dönsku orðabókarinnar.“
Var KGB ekkert að fylgjast með þér?
„Það getur vel verið, ég hafði aldrei neinar áhyggjur af því. Ég var bara ungur og áhyggjulaus.“
Eftir heimkomuna frá Moskvu fékk Eyjólfur vinnu hjá Hafrannsóknastofnun þar sem hann vann í rúman áratug.
„Þá fór ég yfir í fiskeldi og vann við það lengi. Ég hef nú verið að gera hitt og þetta, unnið á sjó til dæmis. Svo gerðist ég búddisti,“ segir hann.
„Ég hef haft áhuga á búddisma frá því ég var ungur og fór svo að iðka hugleiðslu með zen-búddistum hérna heima fyrir örugglega þrjátíu árum . Ég er í dag vígður munkur. Á Íslandi erum við í tengslum við búddista sem eru í Kaliforníu Þeir eru tengdir zen-búddistum í Japan. Það eru hér að minnsta kosti á annað hundrað íslenskir búddistar,“ segir Eyjólfur.
„Ég hef farið mikið í klaustur erlendis, eins og til Sonomasvæðisins í Kaliforníu. Þar er aðalklaustrið okkar. Ábótinn þar er minn gúrú og það var hann sem vígði mig á sínum tíma. Svo hef ég oft farið í klaustur í Suður Frakklandi, Kanshosji, og er þá þar í einn til þrjá mánuði í senn,“ segir Eyjólfur.
„Ég fór til Sonoma vorið 2005 og bjó í klaustrinu í þrjá mánuði. Þar er mikið af japönskum mat á borðum og notað mikið af þara, í mísó-súpur og hitt og þetta. Það kveikti áhuga minn og þegar ég kom heim fór ég að skoða þetta. Ég fór að tína þara og lesa mér til en hann hafði þá sáralítið verið notaður hér heima. Upp úr því stofnaði ég þetta fyrirtæki, Íslenska hollustu sem hét upphaflega Hollusta úr hafinu. Þá var ég nær eingöngu með þara en smám saman næstu ár fór ég að safna íslenskum jurtum og tína ber. Í dag eru þetta meginstoðir fyrirtækisins; þarinn, jurtir og ber. Úr því hráefni gerum við lúxusvörur,“ segir Eyjólfur.
Hvað var það við búddisma sem heillaði þig?
„Þetta er lífsspeki frekar en trú og snýst um að kafa djúpt og þekkja sjálfan sig. Hugleiðslan er kyrrðarslökun þar sem maður fær tóm til að skoða sjálfan sig og velta fyrir sér tilfinningum sínum. Svo verður maður smátt og smátt meðvitaðri og lifir meira í núinu. Hættir að velta fyrir sér framtíðinni eða því sem er liðið. Liðin tíð er oft að angra fólk,“ segir Eyjólfur.
„Þetta breytir manni; kyrrir mann. Þegar maður er ungur er maður eins og vatn í roki sem frussast út um allt en hugleiðslan kyrrir hugann.“
Þurftir þú á því að halda?
„Það þurfa allir á því að halda. Þetta hefur hjálpað mér mjög mikið því það sem er að trufla mann í daglegu lífi er kjaftæðið í hausnum á manni. Þú situr hér á móti mér og ert kannski allt í einu farin að hugsa um einhvern kjól niðri í Kringlu,“ segir hann og blaðamaður sannfærir hann um að hann eigi hans óskiptu athygli.
„Það sem gerist í hugleiðslu er að maður losnar við þetta farg í höfðinu,“ segir Eyjólfur og segist hugleiða daglega.
Eftir að hugmyndin kviknaði í klaustrinu fór Eyjólfur að undirbúa tínslu og sölu á þara og brátt var hann kominn út í aðrar náttúruafurðir.
„Það kom fljótt í ljós að markaðurinn var lítill og fólk þekkti þetta ekki. Eftir að ég var kominn af stað var ég beðinn um að útvega fjallagrös og í dag erum við langstærst á markaðnum í fjallagrösum,“ segir Eyjólfur og nær í lítinn kassa af grösunum til að sýna blaðamanni.
„Ég nota þetta í te. Þegar túrisminn var rétt að byrja fór ég að selja teblöndu á Keflavíkurflugvelli. Svo þegar ferðamennskan tók við sér varð þetta feikivinsælt en í þessu eru fjallagrös, birki og hvönn. Þetta er hryggjarstykkið í þessum túristavörum,“ segir Eyjólfur og hellir heitu tei í bolla fyrir blaðamann.
Í framhaldi af framleiðslu á vörum sem innihéldu jurtir og söl fór fyrirtækið að snúa sér að berjum líka.
Eyjólfur segir að með ferðamönnunum hafi lifnað yfir veitingabransanum og þar sköpuðust enn fleiri tækifæri.
„Þeir hafa keypt vörurnar, enda vildu þeir leggja áherslu á allt íslenskt,“ segir hann og segist líka selja vörur til hinna Norðurlandaþjóðanna.
„Kokkurinn Gunnar Karl á Dill fór að vinna hjá Noma í Kaupmannahöfn, en sá staður er miðstöð norrænnar matargerðar. Þar fara í gegn feikilega margir ungir kokkar frá öðrum Norðurlöndum sem vinna þar í nokkra mánuði í senn. Gunnar Karl vann þar um skeið og fékk hjá okkur jurtir og söl og það varð til þess að Noma fór að kaupa af okkur,“ segir hann og segir að eitt hafi leitt af öðru.
„Nýjasta í þaranum hjá okkur er þangskegg. Það sem er sérkennilegt við það er að lyktin og bragðið af því er eins og af trufflum,“ segir Eyjólfur og gefur blaðamanni smakk.
Trufflulyktin og -bragðið finnst greinilega.
„Svo er svo mikið þarabragð af þessu líka. Kokkar eru alveg vitlausir í þetta. Kokkalandsliðið notar þetta oft.“
„Íslensk hollusta er fjölskyldufyrirtæki en bæði kona Eyjólfs og dóttir vinna við fyrirtækið. Dóttirin Ragnheiður, sem vinnur þar í fullu starfi, er á þönum, en hún byrjaði fyrir fimm árum.
„Hún hafði svo mikinn áhuga á að fara í áfengisframleiðslu sem var rökrétt framhald þar sem við erum með öll hráefnin í slíka framleiðslu,“ segir Eyjólfur og leiðir blaðamann inn í sal fullan af risastórum stáltönkum.
„Hérna er bruggverksmiðja en við keyptum tækin frá Kína. Hér eru framleidd krækiberjavín, rabarbaravín og eimað gin en við erum eina fyrirtækið sem er að framleiða vín úr íslenskum hráefnum. Við seldum vel úti á Keflavíkurflugvelli en það datt niður í faraldrinum,“ segir Eyjólfur og brosir út í annað.
„Þessi vín eru gjarnan drukkin með eftirréttum eða jafnvel hreindýri eða paté. Svo erum við að leika okkur við að búa til bjór og tilbúna kokteila því við höfum meiri tíma. Við erum líka með ginlínu, kryddaða með villtum íslenskum jurtum og berjum,“ segir Ragnheiður sem segir þau hafa notað tækifærið, þar sem árið hafi verið rólegt, til vöruþróunar, nýsköpunar og tilraunamennsku.
„Íslendingar hafa áhuga á þessum vínum. Við erum búin að fjárfesta mikið í tækjum en horfum til framtíðar.“
Þessi kraftmikli sölvasölumaður og búddamunkur er hvergi nærri hættur að vinna, þrátt fyrir að vera orðinn 77 ára. Bjartari tímar eru fram undan með hækkandi sól og einn góðan veðurdag hverfur veiran og túristarnir mæta aftur.
Hugleiðslan hjálpar Eyjólfi að taka hlutum með jafnaðargeði og lifa í núinu en um leið horfa á fyrirtækið vaxa og dafna.
„Hugleiðslan hjálpar mér mikið í vöruþróun því þegar ég fæ hugmyndir get ég einbeitt mér að þeim. Tíbeskur munkur sagði við mig eitt sinn að besta gjöf sem þú gætir gefið sjálfum þér væri að fara að stunda hugleiðslu.“
Ítarlegt viðtal er við Eyjólf í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.