Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í að minnsta kosti tólf útköll vegna hávaða í heimahúsum í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan heimsótti einnig 42 veitingahús og skemmtistaði í miðbæ Reykjavíkur í Covid-eftirlitsleiðangri í gærkvöldi.
Margir barir voru lokaðir og þeir staðir sem voru opnir voru flestir með allt á hreinu varðandi fjöldatakmarkanir og sóttvarnir. Minni háttar athugasemdir voru gerðar sem starfsfólk ætlaði að lagfæra.
Lögreglan heimsótti rúmlega 20 skemmtistaði og veitingahús í Garðabæ og Hafnarfirði. Fáir gestir voru á stöðunum og flestir voru staðirnir með allt sitt á hreinu. Einn staður var ekki með skráningu gesta á hreinu og ætlaði að bæta úr því, að því er segir í dagbók lögreglunnar.
Í Kópavogi og Breiðholti var eftirlit með átta veitingahúsum og skemmtistöðum og var lokað á tveimur stöðum. Allir voru með allt á hreinu varðandi sóttvarnir og fjöldatakmarkanir.
Ítrekað var við starfsmenn á einum veitingastað varðandi lokunartíma og annar var ekki með skráningu gesta á hreinu en ætlaði að bæta úr því.