Embætti héraðssaksóknara hefur ákært Jónmund Guðmarsson, fyrrverandi bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, fyrir meiri háttar skattalagabrot með því að hafa fyrir rekstrarárin 2014-2016 fært tilhæfulausan kostnað upp á tæplega 95 milljónir fyrir samlagsfélagið Polygon og svo eignfæra og fyrna eignir sem voru rekstri fyrirtækisins óviðkomandi.
Samkvæmt ákæru málsins er Jónmundur eigandi að 99% hlutafjár í Polygon. Fram kemur að tilhæfulaus kostnaður hafi verið upp á samtals 93 milljónir vegna greiðslna sem áttu að hafa farið til félagsins Kennel Consulting Ltd í Frankfurt am Main í Þýskalandi.
Þá voru einnig færð til gjalda kaup á vörum og þjónustu frá Frank Michelsen, World Class, Svefni og heilsu, Samsungsetrinu, Elko, Hörpu, Símanum, Hugo Boss og Herragarðinum upp á tæplega tvær milljónir á sama tímabili. Rúv greindi upphaflega frá ákærunni.
Í ákærunni kemur fram að þetta hafi allt verið rekstri félagsins Polygon óviðkomandi og að bókhaldið hafi gefið ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna félagsins, einkum á þann hátt að rekstrargjöld hafi verið oftalin.
Þingfesting málsins fer fram eftir páska í héraðsdómi.