Eldgos á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru er gríðarleg áskorun og Almannavarnir hvetja fólk ekki til að fara og virða eldsumbrotin í Geldingadölum fyrir sér. Á sama tíma segist Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sýna ferðum fólks á gossvæðið skilning, þótt fólk mætti ganga betur um svæðið.
„Þetta hefur gengið ágætlega í heildina. Um helgina var eitthvað um minni háttar óhöpp þar sem fólk datt og sneri sig eða eitthvað slíkt,“ segir Rögnvaldur. Hálka er og hefur verið á gönguleiðinni að gosstöðvunum og er fólk hvatt til að vera vel skóað hyggi það á ferð í Geldingadali.
Aðspurður vonast Rögnvaldur til þess að fólk sýni náttúrunni þá virðingu að henda ekki hlutum frá sér á svæðinu en sjálfur hnaut hann bókstaflega um sóðaskapinn í vettvangsferð á föstudagskvöld.
„Fólk skildi eftir drykkjarumbúðir og annað rusl þar sem það hafði setið. Þetta er leiðinlegt að sjá en fólk er að koma saman þarna til að njóta náttúrunnar og skilur svona við hana. Það passar ekki alveg,“ segir Rögnvaldur.
Tíu manna samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins eru í gildi en talið er að mörg hundruð eða jafnvel þúsundir fari daglega á gossvæðið. Rögnvaldur kveðst vissulega hafa áhyggjur af hópamyndunum vegna faraldursins.
„Þórólfur [Guðnason sóttvarnalæknir] hefur sagt hreint út að hann vilji ekki að fólk fari þangað. Við hvetjum fólk ekki til að fara en á sama tíma þurfum við að sýna því skilning af hverju fólk fer þangað,“ segir Rögnvaldur.
Hann hvetur fólk til að gera Covid-ráðstafanir og koma með grímur ef það er í margmenni þar sem ekki er unnt að halda tveggja metra fjarlægð.