Hrun norðurgígs gosstöðvanna í Geldingadölum aðfaranótt sunnudags virðist hafa dregið skyndilega úr styrk óróa á mælingum Veðurstofunnar á sama tíma.
Á þetta bendir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands. Deilir hún á Twitter myndskeiði sem sýnir hvernig gígurinn hrundi.
Here we see how the N-cone broke of early morning 28 March. This event seems to have caused a sudden #volcanictremor amplitude decrease. https://t.co/IJpe4FVNTE
— Kristín Jónsdóttir (@krjonsdottir) March 29, 2021
Óróamælingar í Fagradalsfjalli virtust í gær hafa gengið niður þá um nóttina og vakti það athygli blaðamanns mbl.is.
„Við fyrstu sýn virðist eins og það hafi dregið lítillega úr virkni eldgossins í nótt, en við sjáum að það er enn þá eldgos yfirstandandi og hvort þetta sé aðeins tímabundið er erfitt að segja á þessum tímapunkti,“ sagði Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, í gær.
Nú virðist sem fyrr ekkert lát á kvikuflæðinu, sem hefur verið talið nema tæplega sex rúmmetrum á sekúndu þar sem það streymir úr möttlinum og upp á yfirborð jarðar.
Enn má sjá hlutann sem hrundi af gígnum á vefmyndavél mbl.is, þar sem hann stendur upp úr hrauninu í forgrunni.