Hrun gígsins dregið skyndilega úr óróanum

Gígarnir tveir fyrir fjórum dögum.
Gígarnir tveir fyrir fjórum dögum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrun norðurgígs gosstöðvanna í Geldingadölum aðfaranótt sunnudags virðist hafa dregið skyndilega úr styrk óróa á mælingum Veðurstofunnar á sama tíma.

Á þetta bendir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands. Deilir hún á Twitter myndskeiði sem sýnir hvernig gígurinn hrundi.

Eins og dregið hefði úr virkninni

Óróamælingar í Fagradalsfjalli virtust í gær hafa gengið niður þá um nóttina og vakti það athygli blaðamanns mbl.is.

„Við fyrstu sýn virðist eins og það hafi dregið lít­il­lega úr virkni eld­goss­ins í nótt, en við sjá­um að það er enn þá eld­gos yf­ir­stand­andi og hvort þetta sé aðeins tíma­bundið er erfitt að segja á þess­um tíma­punkti,“ sagði Ein­ar Hjör­leifs­son, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á vakt hjá Veður­stofu Íslands, í gær.

Stendur upp úr hrauninu

Nú virðist sem fyrr ekkert lát á kvikuflæðinu, sem hefur verið talið nema tæplega sex rúmmetrum á sekúndu þar sem það streymir úr möttlinum og upp á yfirborð jarðar.

Enn má sjá hlutann sem hrundi af gígnum á vefmyndavél mbl.is, þar sem hann stendur upp úr hrauninu í forgrunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert