Leggja grunn að sjálfbæru svæði

Fagradalsfjall gæti orðið vinsæll ferðamannastaður. Í núverandi mynd þolir svæðið …
Fagradalsfjall gæti orðið vinsæll ferðamannastaður. Í núverandi mynd þolir svæðið þó lítinn ágang. Ljósmynd/Ólafur Stephensen

Tugir þúsunda gesta hafa lagt leið sína að eldgosinu í Fagradalsfjalli frá því að það hófst og var svæðið engan veginn undir slíka umferð búið. Smám saman hefur verið unnið að því að bæta aðgengi að svæðinu en betur má ef duga skal.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að tíu milljónir króna, sem ferðamálaráðherra boðaði fyrir helgi að veittar yrðu sveitarfélaginu til umbóta á svæðinu, séu vel þegnar og komi að góðum notum. Að mörgu sé þó að hyggja og ljóst sé að kostnaðurinn við uppbyggingu innviða á svæðinu sé líklega þegar kominn upp í tíu milljónir króna.

„Þetta er það viðkvæmt svæði að það þolir engan veginn langvarandi ágang. Þetta er lítt gróið land og það var til bóta að leiðin hafi verið stikuð. En ef þúsundir og tugþúsundir halda áfram að koma þarf kannski að fara að hugsa þetta í stærra samhengi og það erum við að reyna að gera, að kortleggja svolítið framtíðina,“ segir Fannar. Þar sem ekkert lát virðist vera á gosinu, segir hann það tímabært.

Fyrst og fremst beinist undirbúningur á svæðinu nú að páskahelginni fram undan. „Það er mikil ferðahelgi fram undan hvað varðar gestakomur. Inn í það blandast Covid-faraldurinn og sóttvarnalæknir hefur brýnt fyrir fólki að fara mjög gætilega á svæðinu. Þarna mega ekki koma of margir saman,“ segir Fannar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Gott veður sé þá tvíeggjað sverð, enda ljóst að logn skapar hættu á gasmengun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert