Suðurstrandarvegi verður lokað kl. 21 í kvöld, eða fyrr ef aðstæður breytast til hins verra á svæðinu. Svæðið umhverfis gosstöðvarnar verður sömuleiðis rýmt á miðnætti.
Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnir þetta og bendir á að við lokunarpóst á veginum muni fólki, hvort sem er á bílum eða gangandi, verða vísað frá, frá klukkan 21.
Athuga ferðir ferðamanna
Um leið biðlar lögreglan til fólks að hefja göngu frá gosstöðvunum niður á þjóðveg tímanlega fyrir miðnætti.
Lögreglan segist einnig munu verða með stöðvunarpóst á Suðurstrandarvegi austan við Grindavík. Þar verði allir stöðvaðir og ferðir ferðamanna athugaðar sérstaklega vegna sóttvarnareglna.
Stefnt sé að því að halda svæðinu opnu næstu daga frá kl. 9 að morgni til kl. 21 á kvöldin.
Forðist að taka með sér hunda
Eftirfarandi leiðbeiningar lætur lögreglan fylgja í tilkynningunni. Er meðal annars bent á að forðast skuli að taka með sér hunda að gosstöðvunum.
- Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgossins með vindinn í bakið.
- Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
- Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni.
- Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru berskjaldaðri fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.
- Veðurstofan hefur sett upp veðurstöð við gosstöðvarnar sem sýnir athuganir á klukkustundar fresti.
- Hér eru ráðleggingar frá Umhverfisstofnun vegna mengunar frá gosstöðvum og hlekkur á loftgaedi.is sem sýnir stöðu á loftgæðum í byggð.
- Ábending til foreldra að taka ekki lítil börn með sér á svæðið en landið er nokkuð erfitt yfirferðar og eins með hliðsjón af gasmengun við eldstöðvarnar.
- Vegna hálku á gönguleið er fólki ráðlagt að taka göngubrodda með. Klæða sig vel en strigaskór til að mynda henta engan veginn við aðstæður sem þarna eru.
- Hafið meðferðis andlitsgrímur og sprittbrúsa og gætið að nálægðarmörkum vegna Covid-19.
- Í dag er útlit fyrir norðan og síðar norðaustan 8-13 m/s og leggur mengun þá til suðurs og suðsuðvesturs frá gosinu og þá ekki yfir byggð.