Fólk fætt 1940, 1941 og 1942 fær seinni sprautuna Bólusetningar við kórónuveirunni hér á landi klárast í dag en halda áfram eftir páska. Í dag eru þeir boðaðir í bólusetningu sem fæddir eru 1940, 41 og 42 og verður þeim gefinn seinni skammtur af bóluefni Pfizer.
Samtals verða því um þrjú þúsund manns bólusettir í Laugardalshöll í dag og bóluefni þar með kláruð þar til fleiri skammtar berast á þriðjudag eftir páska, en þá mun bólusetning halda áfram með bóluefnum Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við Morgunblaðið.
„Við fáum ekkert meira efni fyrir páska, við fáum svo meira efni þarna á þriðjudeginum eftir páska. Það verður þá efni frá öllum þremur; Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Þá verður eitthvað um að vera hjá okkur í þeirri viku, strax eftir páska,“ segir Ragnheiður í Morgunblainu í dag.