Fosshótel Reykjavík við Þórunnartún verður frá fimmtudegi og fram yfir páska nýtt sem svokallað sóttkvíarhótel fyrir þá sem koma til landsins frá áhættusvæðum. Þar þurfa þeir að dvelja í fimm daga á milli skimana. Fosshótel Lind verður áfram rekið sem farsóttarhús fyrir þá sem eru sýktir af Covid-19. Fljótlega eftir páska verða önnur sóttkvíarhótel opnuð. Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa.
„Við erum búin að finna staðsetningu sem við vonumst til þess að geta nýtt fram yfir páska og svo opnað fljótlega eftir páska á hinum stöðunum,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.
Ef fólk sem dvelur á sóttkvíarhótelum greinist sýkt af kórónuveirunni verður það flutt yfir í farsóttarhús.
Sex flugferðir eru áætlaðar til landsins á fimmtudag, sama dag og fólk frá áhættusvæðum verður skikkað í sóttvarnahús við komuna til landsins, samkvæmt vef Isavia. Gera má ráð fyrir að farþegar í það minnsta helmings vélanna verði skyldaðir á sóttkvíarhótel, samkvæmt lista stjórnvalda yfir þau lönd sem teljast til áhættusvæða. Þar eru lönd lituð eftir áhættu og verða þeir sem koma frá eldrauðum eða gráum löndum skyldaðir í farsóttarhús hér á landi.
Gylfi segir útlit fyrir að allir farþegar véla frá áhættusvæðum verði skikkaðir á sóttkvíarhótel, nema þeir sem geta sýnt fram á bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri sýkingu.
Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að fólk verði með uppsteyt vegna þess að vera skyldað til dvalar á sóttkvíarhóteli segir Gylfi:
„Fólk verður náttúrlega látið vita af þessu fyrir fram. Ég geri ráð fyrir að farþegar fái upplýsingar um það í dag eða á morgun hvað standi til. Auðvitað getur alltaf eitthvað komið upp á en það eru minnstu áhyggjurnar sem ég hef í sambandi við þetta allt saman.“
Rauði krossinn sér um sóttvarnahúsin og segir í tilkynningu frá honum að erfitt sé að áætla þann fjölda gesta sem mun þurfa að dvelja á sóttkvíarhótelum og í farsóttarhúsum á næstu vikum. Þó má búast við sá fjöldi muni skipta hundruðum. Þjálfun nýs starfsfólks Rauða krossins sem mun sinna fjölbreyttum verkefnum þessu tengdu er þegar hafin.
„Ekki er hægt að panta á sóttkvíarhóteli og munu þau sem þangað fara fá upplýsingar þar að lútandi fyrir komu til landsins. Um farþega frá löndum sem ekki eru á lista sóttvarnalæknis gilda almennar reglur um sóttkví sem má nálgast á covid.is,“ segir í tilkynningu.
Þar er eftirfarandi haft eftir Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins:
„Hjá Rauða krossinum tökum við hlutverk okkar sem mikilvægur hlekkur í almannavörnum landsins mjög alvarlega og nálgumst umsjón farsóttarhúsa og sóttkvíarhótela – eins og öll okkar verkefni – af alúð og virðingu. Þó aðkoma og þrotlaus vinna Rauða krossins í ástandi sem þessu sé tryggð með samkomulagi við stjórnvöld þá er það nú samt svo að án dyggs stuðnings Mannvina, félagsfólks og annarra velunnara væri Rauði krossinn ekki í stakk búinn að bregðast við með þeim snögga og fumlausa hætti sem dæmi undanfarins árs sanna. Fyrir þetta þökkum við af heilum hug en treystum um leið á áframhaldandi stuðning og velvild svo áfram megi bregðast við þegar þörf krefur, með hlutleysi og mannúð að leiðarljósi.“