Gönguleiðin að eldgosinu verður opnuð klukkan níu en leiðinni var lokað klukkan 21 í gærkvöldi. Stefnt er að því að hafa þennan háttinn á næstu daga, það er að hægt verði að ganga að eldgosinu frá klukkan níu að morgni til níu að kvöldi. Svæðið verður rýmt um miðnætti.
Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn í lögreglunni á Suðurnesjum, segir að búast megi við því að fjölmargir leggi leið sína að gosstöðvunum í dag enda veðurspáin góð. Hann hvetur fólk til þess að virða sóttvarnareglur, það er vera með grímu, spritt og gæta að fjarlægðarmörkum. Eins að fólk komi vel búið til göngu. Gönguleiðin getur verið hál og viðbúið að í einhverjum tilvikum sé nauðsynlegt að vera með brodda. Að minnsta kosti vera með þá í bakpokanum til öryggis.
Fremur hæg norðaustanátt er í dag svo mengun leggur til suðvesturs af gosstöðvum, mögulega að einhverju leyti yfir Grindavík. Norðlægari og hægviðri í kvöld svo mengun dreifist ekki mikið en getur safnast upp í nánd við gosið.
Vestlægari og suðvestlægari vindátt á morgun svo einhverrar brennisteinslyktar gæti orðið vart á Suðurlandi. Í Þorlákshöfn, Hveragerði, á Selfossi og í uppsveitum þar norðar.
Gunnar er í aðgerðastjórn almannavarna í Grindavík. Hann segir að svæðinu hafi verið lokað klukkan 21 í gærkvöldi og svæðið rýmt um miðnætti. „Ráðgert er að opna að nýju um klukkan níu. Stefnan er að halda þessu plani næstu daga ýti aðstæður okkur í breytt skipulag,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is í morgun.
Aðstæður geti breyst hratt og bregðast verði við því sem kemur upp en þetta sé stefnan næstu daga. Hann segir að með þessu sé hægt að hvíla björgunarsveitarfólk þrátt fyrir að vakt sé á gosstöðvum allan sólarhringinn en ekki jafn mannfrek að næturlagi.
Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því í gærkvöldi á Facebook að í ljósi þess að Vegagerðin hefur lokið bráðabirgðaviðgerðum á vegi upp með Festarfjalli hefur verið tekin sú ákvörðun að aflétta einstefnuakstri um Suðurstrandarveg til austurs frá Grindavík.
Samhliða þessari afléttingu hefur Vegagerðin sett upp umferðarskilti um lækkaðan hámarkshraða, auk þess sem bann hefur verið lagt við lagningu bifreiða við Suðurstrandarveg.
Öllum bifreiðum verður beint á bifreiðastæði sem útbúin hafa verið í grennd við upphafsstað gönguleiðar. Áætlað er að bifreiðastæði sem útbúin hafa verið geti tekið við um 1.000 bifreiðum.
Gunnar segir að lögreglan muni áfram vera með eftirlit á svæðinu og hún hafi heimild til þess að sekta þá sem leggi í vegkantinum. Lögreglan sé viðbúin því að fjöldi fólks leggi leið sína að gosstöðvunum í dag.
„Við beinum þeim tilmælum til fólks að huga að hættunni á gasmengun og að mökkurinn leggist undan vindi. Að vera með vindinn í bakið ef hægt er. Gas getur safnast saman í dalnum og lægðum og nauðsynlegt að velja gönguleið eftir vindaspám,“ segir Gunnar.
Tvær gönguleiðir eru stikaðar og er umferðinni beint að þeirri gönguleið sem hentar best hvað varðar gasspá. „Hins vegar erum við undirbúin að stika aðra leið og jafnvel tvær ef til kemur og færa umferðina ef vindáttin er þannig,“ segir Gunnar.