Nóttin í sóttvarnahúsi mun kosta 10.000 krónur

Frá 11. apríl næstkomandi munu þeir sem dvelja í sóttvarnahúsi greiða gjald fyrir dvölina þar. Gjaldið nemur 10.000 krónum fyrir herbergi hverja nótt og er fæði innifalið. Gildir þá einu hvort einn dvelur í herberginu eða fleiri einstaklingar sem ferðast saman. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu. 

Fram til þessa hefur gisting í sóttvarnahúsi verið gjaldfrjáls. Frá 1. apríl n.k. verður fólk frá skilgreindum áhættusvæðum skyldað í sóttvarnahús við komuna til landsins, á milli fyrri og seinni sýnatöku. Þá verða börn einnig skimuð við komuna. 

Fólk sem kemur frá Noregi, Svíþjóð og Spáni er á meðal þeirra sem þarf að fara í sóttvarnahús við komuna til landsins. 

Hér má lesa nánar um reglurnar sem taka gildi á fimmtudag. Upplýsingarnar eru fengnar af vef heilbrigðisráðuneytisins.

Sýnataka og sóttkví barna: Börn fædd 2005 eða síðar fara í sýnatöku á landamærunum. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sóttkví ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt. Ef samferðamaðurinn er undanþeginn sóttkví er barnið það sömuleiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sóttkví.

Sýnataka hjá einstaklingum með vottorð: Krafa um sýnatöku hjá einstaklingum með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu er sett vegna vísbendinga um að þessir einstaklingar geti borið smit. Þeir þurfa ekki að sæta sóttkví en skulu bíða niðurstöðu úr sýnatöku á dvalarstað. Krafan er tímabundin og verður endurskoðuð fyrir 1. maí.

Skilgreind áhættusvæði: Þeir sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum skulu dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Þetta á við ferðamenn frá löndum eða landsvæðum þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500 (dökkrauð svæði) eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir (grá svæði), samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu.

Sérstakar varúðarráðstafanir

Ráðstafanir vegna falsaðra vottorða: Ef minnsti grunur vaknar um að einstaklingur hafi framvísað fölsuðu vottorði verður hann skyldaður í tvöfalda sýnatöku með sóttkví á milli í sóttvarnahúsi.

Ef dvalartími er stuttur: Ferðamanni er skylt að forskrá brottfarardag frá Íslandi liggi hann fyrir. Ef dvalartími er skemmri en nemur áskildum tíma í sóttkví verður það kannað sérstaklega, enda hætt við að viðkomandi muni ekki fylgja reglum um sóttkví.

Fólk sem kemur frá Belgíu, Búlgaríu, Eistlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Kýpur, Liechtenstein, Möltu, Noregi, Póllandi, Rúmeníu, Spáni, Slóveníu, Svíþjóð, Tékklandi, Ungverjalandi, Andorru, Kósovó, Moldóvu, Norður Makedóníu, San Marínó, Serbíu og  Svartfjallalandi mun þurfa að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi við komuna til landsins ásamt fólki frá ýmsum Asíu-, Afríku, og Ameríkulöndum. Hér má sjá tæmandi lista sem verður uppfærður 9. apríl n.k.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert