Ökufantur reyndist einnig sóttkvíarbrjótur

Ferðamennirnir fóru í Reynisfjöru, en áttu að vera í sóttkví.
Ferðamennirnir fóru í Reynisfjöru, en áttu að vera í sóttkví. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði í dag erlendan ferðamann fyrir hraðakstur á Suðurlandsvegi vestan við Vík í Mýrdal. Ökumaðurinn gekkst við brotinu og greiddi sektina á staðnum. 

Þegar lögreglumenn fóru að kanna nánari deili á ökumanni og farþegum og hvenær fólkið hefði komið til landsins kom í ljós að ökumaður og einn farþegi áttu að vera í sóttkví frá 27. mars. 

Ferðamennirnir áttu því eftir að klára skyldubundna fimm til sex daga sóttkví og fara í síðari sýnatöku. Þeir brutu því sóttvarnareglur. Ferðamennirnir undirgengust sektargerð vegna málsins og greiddu 50.000 krónur hvor fyrir brotið. 

Ferðamennirnir kváðust hafa farið að skoða sig um í Reynisfjöru og ekki hafa komið nálægt öðru fólki, segir í tilkynningu frá lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert