Skjálfti af stærð 2,9 varð 6,4 kílómetra norðnorðaustur af Krýsuvík klukkan 19.12 í kvöld og fannst hann á Reykjanesi, í Hafnarfirði, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. mbl.is hefur einnig fengið ábendingar um skjálftann úr Vesturbæ Reykjavíkur.
Þó nokkrir skjálftar af svipaðri stærð hafa orðið á Reykjanesskaganum undanfarna daga og misjafnt er hve mjög þeirra verður vart. Þeir sem drifið hafa yfir stærð 3 frá því að gosið hófst eru teljandi á fingrum annarrar handar.
Náttúruvársérfræðingur segir í samtali við mbl.is að þessir skjálftar tengist að einhverju leyti eldvirkninni í Fagradalsfjalli og séu þannig ekki til marks um breytingar á eldgosinu.
Langt er síðan skjálfti af stærð yfir 4 mældist á svæðinu, en það var 15. mars. Eldgos hófst 19. mars.