Stjórn RÚV fundaði í dag meðal annars um þá kröfu Samherja að Helga Seljan verði meinað að fjalla um mál sem tengjast fyrirtækin
Samherji gerði miklar athugasemdir í tilefni af úrskurði siðanefndar RÚV um ummæli Helga Seljan um félagið og málefni þess á samfélagsmiðlum. Þar sagði að úrskurðurinn hefði engin áhrif á störf Helga, enda hefði þar ekki komið fram að hann hefði gerst brotlegur í starfi í skilningi laga. Samherji telur það ekki standast hjá stjórnendunum og krefst þess að Helgi komi ekki að frekari umfjöllun um málefni félagsins.
Þetta kemur fram í bréfi, sem lögmaður Samherja sendi stjórn RÚV í gær. Þar er bent á að samkvæmt úrskurðinum hafi Helgi gerst hlutdrægur og „gengið lengra en sem nam því svigrúmi sem hann hafði til að deila fréttum og fylgja þeim eftir með gagnrýnum spurningum eða ummælum, sambærilegum þeim sem hann myndi viðhafa sem fréttamaður, jafnvel þó slíkt væri gert í eigin nafni“. Brotin væru alvarleg og ítrekuð.
Fram kemur á Kjarnanum að til umræðu á stjórnarfundi í dag hafi verið niðurstaða siðanefndarinnar, endurskoðun siðareglna og bréf Samherja.
Jóhanna Hreiðarsdóttir, stjórnarformaður RÚV, segir við mbl.is að stjórnin muni formlega svara erindi lögmanns Samherja á morgun, miðvikudag.