Talsverður fjöldi fólks á leið til landsins

„Það er ljóst að þetta breytir talsvert því verklagi sem …
„Það er ljóst að þetta breytir talsvert því verklagi sem er fyrir,“ segir Arngrímur Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir að talsverður fjöldi fólks komi til landsins um páskana, á sama tíma og nýjar reglur á landamærum taka gildi. Þá verður fólk frá áhættusvæðum skyldað í fimm daga sóttkví í sóttvarnahúsi á milli fyrri og seinni sýnatöku. Ef einstaklingur sem á að skylda í sóttvarnahús vill ekki halda þangað við komuna til landsins er það sóttvarnalæknis að ákveða næstu skref, hvort viðkomandi verði þvingaður til að verja sinni sóttkví þar eða ekki.

Að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum undirbýr deildin sig nú fyrir breyttar reglur sem taka gildi á fimmtudaginn.

„Það er verið að skoða mannaflaþörfina fyrir verkefni hérna í flugstöðinni. Það liggur fyrir seinni partinn í dag hvernig staðan er á því. Það er ljóst að þetta breytir talsvert því verklagi sem er fyrir,“ segir Arngrímur Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

„Endanleg útfærsla á þessu er svo sem bara nýkomin út en við munum verða tilbúnir á fimmtudaginn til þess að takast á við þær breytingar sem verða þá.“

Hvað gerist ef fólk neitar að fara í sóttvarnahús?

„Ef viðkomandi neitar að fara í sóttvarnahús þá er það sóttvarnalæknis að ákveða næstu skref, hvort viðkomandi verði þvingaður þangað eða ekki. Þetta er allt í samræmi við sóttvarnalög,“ segir Arngrímur.  

„Það er talsvert um flug um páskana. Við erum ekki alveg með farþegatölur á hreinu en þetta verður talsverður fjöldi, það er nokkuð ljóst.“

Fólk sem kem­ur frá Nor­egi, Svíþjóð og Spáni er á meðal þeirra sem þurfa að fara í sótt­varna­hús við kom­una til lands­ins. 

Uppfyllti ekki kröfur og vélinni snúið við

Í fyrradag var einkaflugvél snúið frá landinu þar sem fólkið innanborðs uppfyllti ekki þær kröfur sem þarf að uppfylla við komuna til landsins. Vélin kom frá landi innan EES.

„Þetta var einstaklingur sem kom hingað með syni sínum og vini. Hann ætlaði væntanlega að skoða gosið og eitthvað annað. Þar sem hann uppfyllti engar kröfur varðandi það að mega koma og gat heldur ekki uppfyllt neitt hvað varðar sóttvarnaheimildir þá var þessari einkavél og þeim sem voru um borð vísað frá landi,“ segir Arngrímur.

Spurður hvort um einsdæmi sé að ræða jánkar hann því.

„Það kemur talsverður fjöldi af einkavélum hingað en flestir sem koma með þeim uppfylla kröfur um sóttvarnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert