Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að loka fyrir bílaumferð að gosstöðvunum. Ökumenn sem eru vestan við Stafholt og austan við Ísólfsskála eiga ekki möguleika á að komast inn á svæðið. Margra kílómetra löng bílaröð myndaðist frá bílastæðum við Hraun, í gegnum Grindavíkurbæ og í átt að afleggjaranum við Bláa lónið síðdegis í dag.
Fréttamaður mbl.is á svæðinu líkir örtröðinni við Kringluna eða miðbæinn á Þorláksmessu. Fólk hafi jafnvel tekið upp á því að ganga úr Grindavík að gosstöðvunum, sem er þónokkur spotti.
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segist hafa farið þess á leit við lögreglu að gossvæðið verði ekki opnað aftur fyrr en í fyrramálið.