Tucker: Ísland hljómar ansi vel

Tucker Carlson er einn vinsælasti sjónvarpsmaður í Bandaríkjunum, þó að …
Tucker Carlson er einn vinsælasti sjónvarpsmaður í Bandaríkjunum, þó að sannarlega sé hann umdeildur. AFP

Tucker Carlson sagði í þætti sínum nýverið að ferðalag til Íslands hljómaði ansi vel, en viðmælandi hans hafði misskilið sóttvarnaráðstafanir við landamærin og taldi að maður kæmist vandræðalaust inn í landið með bandarískt bólusetningarvottorð.

Bandaríska sóttvarnastofnunin (CDC) hefur í marsmánuði innleitt ákveðin fríðindi fyrir bólusetta í landinu, sem bólusettir geta í sumum tilvikum notið á grundvelli bólusetningarvottorðs.

Á meðal fríðindanna er að þurfa ekki að fara í sóttkví eftir ákveðin ferðalög, sem var til umræðu hjá þáttastjórnandanum Tucker Carlson á sjónvarpstöðinni Fox í dag. Carlson gagnrýndi þá ráðstöfun harkalega að veita bólusettum forréttindi, enda væri það ekki til annars fallið en að ýta enn undir samsæriskenningar um bóluefnið.

Húrra fyrir Reykjavík

Eftir gagnrýni Carlsons rifjaði twitternotandi upp viðtal sem hann tók fyrr í mánuðinum við dr. Marc Siegel, helsta álitsgjafa Fox í heilbrigðismálum, þar sem Carlson var ekki alveg eins neikvæður gagnvart hugmyndinni um bólusetningarvottorð.

Dr. Siegel mælti þar heils hugar með ferðalagi til Íslands, þar sem nú væri tekið við bólusetningarvottorðum. „Húrra fyrir Reykjavík, sem er að hleypa ferðamönnum inn með þetta bólusetningarvottorð núna. Engin sýnataka og engin sóttkví, bara bólusetningarvottorð,“ sagði Siegel. 

„Hérna er bóluefnið þitt, farðu nú til Reykjavíkur með ódýru flugi og sjáðu norðurljósin, Tucker,“ segir Siegel. Tucker svarar: „Það hljómar bara ansi vel.“

Tucker Carlson og Dr. Marc Siegel.
Tucker Carlson og Dr. Marc Siegel. Skjáskot/Fox News

Viðtal Carlsons við Siegel er frá því í lok febrúar og upplýsingarnar sem Siegel hefur stangast á við að þá hlutu ferðamenn utan Schengen engin forréttindi við komuna til landsins, nema bólusetningarvottorð þeirra væri frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Um miðjan mars ákváðu heilbrigðis- og dómsmálaráðherra þó að taka við bandarískum bólusetningarvottorðum en sú ráðstöfun hefur ekki enn tekið gildi. Jafnvel þegar hún gerir það þurfa bólusettir enn að fara í einfalda sýnatöku við komuna til landsins. Skilaboð Siegels standast því ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert