Um 90% starfsfólks í bólusetningarferli

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum síðasta árið vegna kórónuveirunnar.
Mikið álag hefur verið á Landspítalanum síðasta árið vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Um 90% starfsfólks Landspítala eru nú í bólusetningarferli, þ.e. búin að fá einn eða tvo skammta af bóluefni gegn Covid-19 eða eru á leið í bólusetningu í dag. Eftir daginn í dag verða um 250 starfsmenn spítalans óbólusettir.

Hlé var gert á bólusetningum á Landspítala samhliða hléi á notkun bóluefnis AstraZeneca fyrir um þremur vikum. Eftir að notkun bóluefnisins var heimiluð fyrir 70 ára og eldri í síðustu viku fékk Landspítali skammta frá Pfizer í stað skammtanna frá AstraZeneca og hófust bólusetningar með efninu á föstudag. 

„Við fengum bóluefni frá Pfizer fyrir um 2.100 manns þannig að við förum mjög langt með spítalann í dag,“ segir Hildur Helgadóttir, verk­efna­stjóri hjá far­sótt­ar­nefnd Land­spít­ala. 

Mikill léttir

Aðspurð segir Hildur að fólk hafi verið hæstánægt með að bólusetningar gætu hafist aftur innan spítalans. 

„Þetta var mikill léttir og mikil gleði. Við erum búin að bólusetja alla daga síðan á föstudaginn og það er bara mikil gleði með þetta allt saman.“

Ekki er komið á hreint hvenær spítalinn fær bóluefnaskammta fyrir það starfsfólk sem ekki næst að bólusetja í dag. „Við eigum eftir að gera upp hversu mikið við þurfum nákvæmlega,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert