Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosstöðvunum á Reykjanesskaga síðan eldgos hófst í Geldingadölum föstudagskvöldið 19. mars. Langflestir virðast vel búnir undir langa göngu og mikla útiveru, að minnsta kosti ef marka má álagið sem myndast hefur í útivöruverslununum Fjallakofanum og GG sport.
„Það er allt að springa hérna í búðinni hjá okkur,“ sagði afgreiðslumaður í Fjallakofanum sem ræddi símleiðis við blaðamann í morgun.
Þar hefur verið „alveg brjálað að gera“ síðan gosið hófst.
Grunnútbúnaður; gönguskór, stafir, höfuðljós, bakpokar og broddar, hefur rokið út eins og heitar lummur í báðum verslunum og starfsfólk búðanna segir ljóst að viðskiptavinir þeirra vilji ekki fara á flatbotna strigaskóm og gallabuxum á gossvæðið í Geldingadölum.
„Þetta er bara eins og jólin,“ segir afgreiðslumaður í GG sport áður en hann er rokinn til að afgreiða væntanlegan göngugarp í Geldingadölum.