Landspítali er áfram á hættustigi samkvæmt nýjustu ákvörðun farsóttanefndar sjúkrahússins. Hættustigi var lýst yfir fyrir viku og mun áfram gilda í vikunni.
Á vef Landspítala sagði áðan að spítalinn hefði verið færður aftur niður á óvissustig í stað hættustigs en þegar mbl.is hafði samband við aðstoðarmann forstjóra spítalans til að afla nánari upplýsinga um þá ákvörðun kom á daginn að um villu væri að ræða. Hún hefur verið leiðrétt á síðu spítalans.
Einn sjúklingur er inniliggjandi vegna Covid-19 með virkt smit á Landspítala en enginn er á gjörgæslu. 18 andlát urðu á Landspítala í 3. bylgju faraldursins sem hófst í haust en má segja að hafi lokið fyrr á þessu ári.
121 sjúklingur er í eftirliti Covid-19-göngudeildar, þar af 34 börn.
Komið hefur fram að 90% starfsfólks spítalans hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni.
Eftirfarandi ráðstafanir eru í gildi vegna neyðarstigsins:
Sjúklingar og gestir
- Heimsóknir takmarkast við einn gest á dag til hvers sjúklings. Hámarksdvöl er ein klukkustund. Brýnt er að heimsóknargestir viðhafi persónulegar sóttvarnir, noti andlitsgrímu, virði fjarlægðarmörk (2 metra) og séu fullvissir um að þeir hafi engin einkenni sem samrýmst geta einkennum Covid-19.
- Á dag- og göngudeildum og öðrum meðferðarsvæðum gilda reglur um hámarksfjölda í rými (10 manns) og eru sjúklingar beðnir að kynna sér aðstæður á þeim deildum sem þeir eiga erindi á.
- Ekki er gert ráð fyrir fylgdarmönnum með sjúklingum sem leita meðferða á dag- og göngudeildum á spítalanum, nema í sérstöku samráði við viðkomandi deildir.
- Sé flutningur sjúklings á aðra stofnun fyrirhugaður skal taka af honum sýni áður en flutningur fer fram.
Starfsfólk
Starfsfólk er beðið að huga sérstaklega að persónulegum sóttvörnum, notkun andlitsgrímu alltaf og alls staðar og virða fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir í kaffistofum og matsölum spítalans. Áréttað er að reglur gilda um allt starfsfólk, bólusett jafnt sem óbólusett, sem og aðra þá sem hafa mótefni gegn Covid-10
- Því er beint til starfsfólks að sinna vinnu sinni í fjarvinnu, sé þess nokkur kostur, í samráði við sína stjórnendur.
- Fundir skulu vera á fjarfundaformi.
- Starfsfólk er eindregið hvatt til að forðast ferðalög næstu vikur og gæta fyllstu varúðar innan og utan vinnustaðar.
- Verði starfsmaður var við minnstu einkenni skal hann óska eftir sýnatöku hjá starfsmannahjúkrunarfræðingi (starfsmannahukrun@landspitali.is). Þetta gildir einnig um bólusetta starfsmenn.
- Kaffistofur starfseininga fara aftur í fyrra horf, fjöldi takmarkast af fjarlægðarmörkum - miðað er við 2 metra.
- Taka skal sýni hjá sjúklingum sem flytjast á milli stofnana.
- Gert er ráð fyrir breytingum á framleiðslu matar í matsölum og er starfsfólk beðið um að fylgjast með tilkynningum og fylgja fyrirmælum í matsölum.