Heppnir áskrifendur unnu Toyota Yaris

Júlíus og Elín tóku við lyklunum úr hendi Haraldar Johannessen …
Júlíus og Elín tóku við lyklunum úr hendi Haraldar Johannessen ritstjóra í Toyota-umboðinu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Elín Hreggviðsdóttir og Júlíus Sigurðsson frá Reykjanesbæ brostu hringinn í gær þegar þau fengu afhentan vinning úr happdrætti Morgunblaðsins og Toyota á Íslandi. Elín og Júlíus fengu splunkunýjan Toyota Yaris í verðlaun, perluhvítan með svörtu áklæði.

Þau hafa verið áskrifendur Morgunblaðsins í 30 ár, frá því þau byrjuðu að búa, og segjast lesa blaðið á hverjum morgni. Raunar eru þau svo dyggir lesendur að þau fengu Morgunblaðið sent til sín hverja helgi þegar þau bjuggu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum.

„Þetta kom mjög á óvart,“ segir Elín við Morgunblaðið, á meðan hún mátar bílstjórasætið á nýju Toyotunni.

„Bróðir minn sagði mér að það hefði einhver Elín úr Reykjanesbæ unnið og við héldum fyrst að ég hefði unnið bíl til afnota en ekki til eignar.“ Heldur betur ekki, því Elín fékk að keyra burt úr umboði Toyota í Kauptúni sem eigandi nýs bíls.

Fá að eiga bílinn í friði

Spurð hvort þau ætli að leggja land undir fót á nýja bílnum segjast Elín og Júlíus ætla að hlýða Víði og vera heima um páskana. Frekar verði tilefni til langferða í sumar þegar aðstæður leyfa. Elín og Júlíus segja það mikla búbót að fá annan bíl á heimilið. Þau eiga þrjú börn og eitt þeirra var að fermast í fyrra, það er því heldur snemmt að segja að unglingarnir á heimilinu muni einoka bílinn — mamma og pabbi fá að eiga hann í friði um sinn.

Elín og Júlíus hafa átt Toyotu áður, og það tvær. Eitt sinn áttu þau Toyota Corolla en þar áður Toyota Yaris og eru því öllum hnútum kunnug. Spurð hvort þau séu ekki ánægð með nýja bílinn svara þau játandi í kór. „Hver vinnur eiginlega nýjan bíl? Þetta er alveg ótrúlegt. Gerist áskrifendur að Morgunblaðinu!“ segir Elín og hlær. Þar með sannast hið fornkveðna: Frúin hlær í betri bíl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert