Stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, lýsir yfir vonbrigðum sínum vegna nýjustu úthlutunarreglna Menntasjóðs námsmanna fyrir árið 2021-2022, sem komu út í dag. Hafði stjórnin vonað að hámark skólagjaldalána fyrir námsmenn erlendis yrði hækkað, sem var ekki gert, og liggur því fyrir að upphæð þeirra muni ekki duga fyrir stóran hluta íslenskra námsmanna í Bretlandi og Bandaríkjunum, en þau eru tvö af þremur vinsælustu námslöndum íslenskra námsmanna.
Í yfirlýsingu stjórnarinnar, sem send var á fjölmiðla í kvöld, segir einnig að stjórninni þyki dapurlegt að ráðherra hafi ekki séð sér fært að setja inn þann varnagla sem SÍNE barðist fyrir að yrði komið fyrir í úthlutunarreglum, en sá var til þess fallinn að ef gengissveiflur yrðu miklar þyrfti stjórn sjóðsins að kanna hvort námsmenn erlendis ættu rétt á staðaruppbót vegna gengisveikingar krónunnar.
Þá fagna samtökin því að ráðherra sé að skoða að hækka framfærslu námsmanna en í yfirlýsingunni segir að það verði að teljast athyglisvert að sú ákvörðun sé ekki tilbúin þegar úthlutunarreglur næsta árs eiga að liggja fyrir. „SÍNE hvetur þó ráðherra áfram í þeirri vegferð og vonast til þess að geta fagnað enn meira þegar hópur ráðuneytisstjóra skilar inn tillögum sínum 1. maí n.k.,“ segir í yfirlýsingu stjórnar, sem Ragnar Auðun Árnason, fulltrúi SÍNE í stjórn Menntasjóðs námsmanna, undirritar fyrir hönd hennar.