Mengun á gossvæðinu hættuleg hundum

Það er spennandi að skoða eldgosið í Geldingadölum. MAST mælir …
Það er spennandi að skoða eldgosið í Geldingadölum. MAST mælir þó með því að hundar verði ekki teknir með í það ferðalag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Matvælastofnun (MAST) ráðleggur fólki frá því að taka hunda með á gosstöðvarnar í Geldingadölum þar sem mengun er mikil á svæðinu og getur hún haft skaðleg áhrif á dýrin. Þá er jafnframt hætta á ýmiss konar slysum, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Vakin er athygli á því að rannsóknir Jarðvísindastofnunar og Veðurstofu Íslands á regnvatni á gossvæðinu hafa sýnt fram á töluverða efnamengun. Má í því samhengi nefna að flúrsýra hefur greinst allt að 60-falt yfir neysluvatnsviðmiðum, auk þess mælist mikil saltsýra og sýrustig er mjög lágt.

„Ef hundar drekka vatn á svæðinu, éta snjó, eða sleikja þófa getur það haft neikvæð heilsufarsleg áhrif. Saltsýra og lágt sýrustig á yfirborði getur ert þófa og sært. Hundur með sára þófa sleikir þá gjarnan og efnin geta borist í hundinn,“ segir í tilkynningu MAST.

Einnig er bent á að mikið sé um áreiti, bæði hljóð og lykt, á gossvæðinu sem veldur því að margir hundar upplifa vanlíðan. Bent er meðal annars á mikla umferð flugvéla, dróna og þyrlna.

Íslenski fjárhundurinn er frábær félagi, en betra er að skilja …
Íslenski fjárhundurinn er frábær félagi, en betra er að skilja hann eftir heima frekar en að taka hann með á gossvæðið. mbl.is/Atli Vigfússon

Fólk sem þrátt fyrir viðvaranir ákveður að leggja í leiðangur að gosstöðvum með hunda er beðið að huga að öryggi hundanna með eftirfarandi hætti:

  1. Ekki láta hundana drekka úr vatnspollum, né éta snjó á svæðinu! Vatnið getur verið mengað af alls kyns skaðlegum efnum. Hafið með drykkjarvatn og skál og bjóðið hundinum eftir þörfum að drekka úr skálinni.
  2. Reynið að koma í veg fyrir að hundarnir sleiki feld eða þófa fyrr en skolað hefur verið af þeim með vatni eftir að komið er af gossvæðinu.
  3. Hafið hundana ávallt í taumi! Lausir hundar geta hlaupið í lægðir þar sem er gas og jafnvel á hraunið. Lausir hundar geta líka valdið öðru fólki hættu og óþægindum á leiðinni með því að koma því úr jafnvægi eða velta á það grjóti.
  4. Ekki fara mjög nálægt hrauninu með hund! Hundarnir eru töluvert lægri en við og geta fengið í sig mikið meira gas. Haldið ykkur ofarlega í brekkunni með vindinn í bakið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert