Nýjasta mælingin á rúmmáli hraunsins í Geldingadölum kann að gefa til kynna að dregið hafi úr gosinu. Mikil óvissa er þó um niðurstöðurnar þar sem aðeins sólarhringur leið á milli mælingarinnar, sem gerð var í gær, og næstu mælingar þar á undan.
Mæling gærdagsins gefur til kynna hraunflæði upp á yfirborðið sem nemur 2,6 rúmmetrum á sekúndu. Fyrri mælingar hafa flestar sýnt hraunflæði upp á 5 til 7 rúmmetra á sekúndu.
Aftur var mælt í dag og er nú verið að vinna úr þeim niðurstöðum.
„Sú mæling ætti að skýra þróunina töluvert, þótt ekki megi fullyrða að hún geti skorið úr um þetta,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Mælingarnar eru gerðar með þeim hætti að myndir eru teknar af hrauninu, ýmist á flugi eða úr gervihnöttum, rúmmál þess reiknað út og þá hraunflæðið einnig, með því að skoða breytingar á rúmmálinu milli mælinga.
„Þeim mun lengra sem líður á milli mælinga, því auðveldara er að skilgreina mismuninn,“ segir Magnús Tumi.
Hann útskýrir á einföldu máli:
„Ef það bætist við hjá þér eitt kíló á dag, og þú stígur daglega á vigt með óvissu upp á hálft kílógramm, þá geturðu þannig fengið nákvæmlega sömu tölu tvo daga í röð. En ef þú stígur aftur á vigtina eftir tíu daga, þá geturðu verið nokkuð viss um hvert stefnir, þótt óvissan sé enn þá hálft kíló.“
Yfirlit Jarðvísindastofnunar um mælingar á eldgosinu má nálgast hér.
„Það er hér fólk sem kann mjög vel til verka og vinnur úr þessu hratt og örugglega. Það eru nokkrar stofnanir sem koma að þessu; Náttúrufræðistofnun, Jarðvísindastofnun, Veðurstofan og Landmælingar. Það er einfaldlega hlaupið í þetta og græjað – þetta er látið ganga fyrir öðru þannig að hægt sé að fylgjast með gosinu eins vel og hægt er,“ segir Magnús Tumi.
„Því þótt þetta sé ekki stærsti atburðurinn þá er þetta bara nálægt byggð og þá þarf að vita hvað er að gerast. Því er ekkert annað í stöðunni en að mæla þetta vel og gera ráðstafanir út frá því, til dæmis ef við sjáum mengun fara yfir einhver mörk. Ef þetta væri pínulítið gos uppi á miðju hálendi þá væri þetta nú kannski ekki megináhyggjuefnið.“