Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, segir að á Íslandi séu um það bil 15 skipulagðir glæpahópar að störfum, hið minnsta, jafnt íslenskir sem erlendir.
Hann segir að skipulögð glæpasamtök séu helsta ógn vestrænna samfélaga, ekki aðeins vegna síaukins ofbeldis sem þau beita, heldur einnig vegna félagslegs og fjárhagslegs tjóns sem brotastarfsemi þeirra veldur.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segr Karl Steinar að lögregluembætti á landinu öllu verði að snúa bökum saman til þess að stemma stigu við brotastarfsemi, sem teygir sig í síauknum mæli út í dreifðari byggðir landsins. Framleiðsla fíkniefna hefur, að sögn Karls, færst út fyrir borgarmörkin og í t.a.m. sumarbústaði og fámennari sveitarfélög, þótt hún sé enn til staðar á höfuðborgarsvæðinu.