Hreyfimynd sem unnin var úr vefstreymi RÚV af gosstöðvunum sýnir hvernig brot úr nyrðri gígnum fór á flakk í hraunflæðinu eftir að hafa hrunið aðfaranótt sunnudags.
Greint var frá því á mbl.is á mánudag að svo virtist sem hrunið hefði dregið skyndilega úr styrk óróa á mælingum Veðurstofunnar á sama tíma.
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands vann myndefnið úr streyminu og sjást á því hreyfingar yfir fimm klukkustunda tímabil.
„Vel sést hvernig flakkarinn silast hægt með hreyfingu hraunsins frá gígunum. Fyrstu tímana eftir að hann hrundi frá gígunum ferðaðist hann til vesturs, en nú virðist hann stefna til suðurs ásamt storknaðri hraunkápunni í kring,“ segir í færslu á Facebook-síðu hópsins.
„Flakkarinn og hraunskorpan umhverfis hann virðist fljóta ofan á deigu hrauninu undir sem brátt mun fylla upp í Geldingadali.“
Brotið stóra sést á myndskeiðinu greinilega niðri til vinstri.