Fjöldi fólks lagði leið sína á gosstöðvarnar alla leið frá Grindavík síðdegis í gær og í gærkvöldi. Margir voru því þreyttir þegar komið var aftur niður í Nátthagakrika og út á Suðurstrandarveg. Þá var enn um sjö kílómetra ganga fyrir höndum aftur til Grindavíkur.
„Við vorum með allt of margt fólk og allt of marga bíla,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður á Suðurnesjum, sem meðal annarra hefur stýrt aðgerðum á vettvangi.
„Það voru mjög margir þreyttir þegar þeir komu niður, höfðu þá komið langt að, alla leið úr Grindavík. En svona heilt yfir slapp þetta án stóráfalla.“
Samtals, frá Grindavík í Geldingadali og aftur til baka, er gangan um tuttugu kílómetrar.
„Fyrir þá sem eru ekki eitthvað vanir þá er þetta glórulaus ganga,“ segir Hjálmar.
„Það komu upp tilfelli þar sem fólk var orðið mjög þreytt og átti erfitt með að koma sér sjálft til byggða. Við aðstoðuðum það ásamt björgunarsveitunum, en ég trúi því að fólk læri af þessu. Þetta er ekki gott.“
Lögreglan greindi frá því í morgun að í ljósi reynslu síðustu daga verði lokað fyrir alla umferð að gosstöðvum kl. 18, eða fyrr ef nauðsyn krefur. Viðbragðsaðilar muni svo hefja rýmingu á gossvæði kl. 22. Til og með 5. apríl verði opnað fyrir umferð kl. 6 að morgni.
Spurður hvort hann telji að tök náist á ástandinu með þessum takmörkunum, segir Hjálmar að vonast sé til þess.
„En við gerum okkur grein fyrir því líka, að það eru mjög margir sem vilja bara sjá þetta í myrkri. Samt sem áður, ef við eigum að vera með eftirlit á svæðinu og gæta að öryggi fólks, þá getum við ekki sinnt því allan sólarhringinn. Við höfum hvorki björgunarsveitir, lögreglumenn eða annað til að ná því.“