Alls greindust átta með kórónuveiruna innanlands í gær. Sex þeirra greindust við einkennasýnatöku en tveir við skimun vegna sóttkvíar. Af þeim átta sem greindust í gær voru þrír í sóttkví og fimm utan sóttkvíar.
Einn greindist við seinni skimun á landamærunum í gær og einn bíður niðurstöðu mótefnamælingar. Daginn áður greindust tveir við fyrri skimun en fimm voru með mótefni.
Nú eru 118 í einangrun og hefur fjölgað um níu síðan í gær. Mjög hefur fækkað í sóttkví, eru 405 samanborið við 972 í gær. 1.603 eru í skimunarsóttkví og einn er á sjúkrahúsi. Það er einn tíu smitaðra skipverja um borð í súrálsskipi við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði. Hann var fluttur með sjúkraflugi á Landspítala á sunnudag en líðan hans fór að versna um helgina og þótti rétt að flytja hann til öryggis á sjúkrahús.
Alls eru 34 börn með Covid á Íslandi í dag. Flest smitin eru í aldurshópnum 30-39 ára eða 37. Tvö smit eru meðal barna á aldrinum 15 ára, 23 smit eru á meðal barna á aldrinum 6-12 ára og níu í aldurshópnum 13-17 ára. Í aldurshópnum 18-29 ára eru 19 smit. Sextán smit eru í aldurshópnum 40-49 ára. Níu smit eru í aldurshópnum 50-59 ára, eitt meðal fólks á sjötugsaldri og tveir á áttræðisaldri eru með Covid-19.
Fjölmargir fóru í skimun í gær eða rúmlega 2.100 manns. Á landamærunum voru 370 einstaklingar skimaðir.
Nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa er nú 19,1 síðustu tvær vikur og 11,2 á landamærunum. Undanfarna daga hefur hlutfall nýrra smita hækkað jafnt og þétt innanlands en lækkað við landamærin.