Ali Conteh var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjaness á föstudaginn sl. fyrir að nauðga ungri stúlku á heimili sínu eftir að þau hittust á skemmtistað í miðbænum. Hann var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 1,6 milljónir í miskabætur.
Atvikið átti sér stað í september árið 2018, um klukkan fjögur um nóttina kom lögregla að heimili mannsins eftir að vinkona stúlkunnar hringdi á lögreglu. Brotaþoli hafði þá hringt í vinkonu sína í „móðursýkiskasti“ og sagði manninn vera að sleikja kynfæri hennar. Lögregla hafði ekki upplýsingar um staðsetningu stúlkunnar en bróðir hennar náði sambandi við hana í gegnum Snapchat og fann þannig út hvar hún var.
Eftir að stúlkan komst út úr íbúðinni hringdi hún í bróður sinn og sagðist vera í anddyri einhvers húss. Bróðir hennar sagði henni að öskra og gengu lögreglumenn á hljóðin. Hún var klædd í handklæði og skó þegar lögreglumenn komu að henni og var maðurinn við hlið hennar klæddur í náttslopp.
Stúlkan var verulega ölvuð samkvæmt lögregluskýrslu og þá var maðurinn einnig sagður ölvaður en þó verið vel viðræðuhæfur og skýr í tali. Þá lá fyrir í málinu að þau höfðu reykt saman marijúana og hafði það sljóvgandi áhrif á stúlkuna ofan í ölvunina.
Var það mat dómsins að leggja yrði til grundvallar að maðurinn hefði sleikt kynfæri stúlkunnar og haft við hana samfarir gegn vilja hennar. Stúlkan hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna ölvunar, áhrifa fíkniefna og svefndrunga.