Unnið að hækkun framfærslu námsmanna

Nýjar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022 verða birtar í …
Nýjar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022 verða birtar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Unnið er að því að bæta hag námsmanna og færa kjör þeirra nær neysluviðmiðum, að því er fram kemur í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar segir að meðal markmiða Menntasjóðs námsmanna, sem nú hefur starfað í tæpt ár, sé að auka jafnrétti til náms og bæta fjárhagsstöðu einstaklinga í námi og eftir að námi þeirra lýkur.

Framfærsluviðmið námslána hafa hækkað umfram verðlag, en þó ekki fylgt kaupmáttaraukningu að fullu, en unnið er að því að brúa þessi bil og ráðgert er að stíga mikilvæg skref í þá veru á næstu vikum. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að fela hópi ráðuneytisstjóra að vinna tillögur að hækkun framfærslu námsmanna og skila tillögum þar að lútandi fyrir 1. maí næstkomandi.

„Við viljum að Menntasjóður námsmanna sé öflugt jöfnunartæki og mæti fjölbreyttum þörfum stúdenta. Ég tel hækkun framfærslu námsmanna nauðsynlega og góða fjárfestingu yfir samfélagið, ekki síst í ljósi markmiða okkar um framtíðarvöxt hagkerfisins og langtímaatvinnustig ungs fólks,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.


Nýjar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022 verða birtar í dag. Þar kemur meðal annars fram að:

  • Framfærsla, húsnæðisbætur og barnastyrkur hækka um 3,45%, með hliðsjón af verðlagsbreytingum.
  • Frítekjumark námsmanna verður 1.410.000 kr. og hækkar um 46.000 kr. frá fyrra ári.
  • Skilyrði fyrir undanþágu vegna námsframvindu vegna örorku er lækkað úr 75% í 50% hlutfall. 
  • Námsmenn sem skráðir eru í bakvarðasveit geta áfram óskað eftir því að tekjur sem aflað er vegna þeirrar vinnu verði dregnar frá við útreikning á námslánum.
  • Heimilt er að veita nemendum í staðnámi viðbótarframfærslu (staðaruppbót) í þeim löndum þar sem verulega munar á íslenskri framfærslu og framfærslu í viðkomandi landi.
  • Heimilt verður að nýta viðbótarskólagjaldalán vegna náms sem skipulagt er sem samfellt nám lengur en 5 ár, líkt og nám í læknisfræði, óháð námsári. Með þessari heimild er komið til móts við gengisbreytingar á skólagjöldum án þess að hækka hámark skólagjaldalána.
  • Umsóknarfrestir námslána eru samræmdir og verða núna 15. janúar fyrir vorönn, 15. júní fyrir sumarönn og 15. september fyrir haustönn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert