Unnið er að því að bæta hag námsmanna og færa kjör þeirra nær neysluviðmiðum, að því er fram kemur í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar segir að meðal markmiða Menntasjóðs námsmanna, sem nú hefur starfað í tæpt ár, sé að auka jafnrétti til náms og bæta fjárhagsstöðu einstaklinga í námi og eftir að námi þeirra lýkur.
Framfærsluviðmið námslána hafa hækkað umfram verðlag, en þó ekki fylgt kaupmáttaraukningu að fullu, en unnið er að því að brúa þessi bil og ráðgert er að stíga mikilvæg skref í þá veru á næstu vikum. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að fela hópi ráðuneytisstjóra að vinna tillögur að hækkun framfærslu námsmanna og skila tillögum þar að lútandi fyrir 1. maí næstkomandi.
„Við viljum að Menntasjóður námsmanna sé öflugt jöfnunartæki og mæti fjölbreyttum þörfum stúdenta. Ég tel hækkun framfærslu námsmanna nauðsynlega og góða fjárfestingu yfir samfélagið, ekki síst í ljósi markmiða okkar um framtíðarvöxt hagkerfisins og langtímaatvinnustig ungs fólks,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Nýjar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022 verða birtar í dag. Þar kemur meðal annars fram að: