Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Verði ályktunin samþykkt á Alþingi yrði ríkisstjórninni falið að skipa þriggja manna nefnd til að stýra vinnunni.
Hlutverk nefndarinnar yrði að meta hvernig og hvenær hefja skyldi formlegar aðildarviðræður að nýju og undirbúa tillögu til þingsályktunar þar að lútandi, sem að fengnu samþykki Alþingis yrði borin undir þjóðaratkvæði til endanlegrar staðfestingar.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um endurupptöku viðræðna færi fram eigi síðar en í janúar 2022, að því er fram kemur í tillögunni.
Í greinagerð með tillögunni er vísað í þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem samþykkt var á Alþingi í júlí 2009 en bent er á að þingið hafi ekki ályktað um efnið á annan veg síðan tillagan var samþykkt fyrir tæpum tólf árum.
„Evrópsk löggjöf mótar réttarreglur á flestum sviðum í búskap þjóðarinnar. Viðbótarskrefið til fullrar aðildar yrði því minna en það sem stigið var á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Eigi að síður yrði verulegur pólitískur, lýðræðislegur og efnahagslegur ávinningur af því að njóta fullra réttinda og sitja við borðið með þeim ríkjum sem næst okkur standa, eins og Ísland gerir í Atlantshafsbandalaginu. Afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafa gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum. Ísland þarf af þeim sökum að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt. Aukin alþjóðleg samvinna er óhjákvæmileg í þeim tilgangi. Loftslagsmálin kalla einnig á að ný skref verði stigin á þessu sviði. Lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu er nærtækasti og áhrifaríkasti kosturinn í þessu efni,“ segir meðal annars í greinargerðinni sem lesa má hér.