„Það er fínt rennsli og alveg passleg mæting, við getum orðað það þannig,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, í samtali við mbl.is síðdegis þennan þrettánda dag goss í Geldingadölum.
Mikil aðsókn var á gosstöðvarnar í gær, svo mikil raunar að Suðurstrandarvegur fylltist af bílum allt frá Ísólfsskála og vestur til Grindavíkur.
Lögreglan greindi frá því í morgun að í ljósi reynslu síðustu daga verði lokað fyrir alla umferð að gosstöðvum kl. 18, eða fyrr ef nauðsyn krefur. Viðbragðsaðilar muni svo hefja rýmingu á gossvæði kl. 22. Til og með 5. apríl verði opnað fyrir umferð kl. 6 að morgni.
Spurður hvort von sé á aukinni umferð nú undir lok vinnudags segist Bogi smeykur um það.
„Það gæti orðið einhver smá viðbót þar. Maður veit aldrei. Þetta byrjaði líka svona í gær, ef ég man rétt.“
Fjöldi björgunarsveita hefur lagt leið sína á Reykjanesskaga til að veita Þorbirni liðsinni.
„Það er Vopnafjörður ...“ segir Bogi en afræður að best sé að sleppa allri upptalningunni. „Ég held bara að fólk sé hreinlega búið að skrá sig af öllu landinu. Við erum mjög þakklát fyrir það.“
Björgunarsveitarfólk hefur enda fundið mjög fyrir álaginu sem fylgir aðsókn fólks sem þyrstir í að sjá gosið eigin augum. Og Grindvíkingar sömuleiðis. Bæjarbúar komust margir ekki leiðar sinnar innanbæjar í gær vegna bílafjöldans úr borginni.
„Ég vona að það verði bara ekki aftur,“ segir Bogi.
Þá má ekki gleyma að björgunarsveitarfólk í Grindavík hefur líka öðrum hnöppum að hneppa en að gæta öryggis fólks við gosstöðvarnar.
„Við höfum reynt að rótera þessu. Sumir eru í vinnu og sumir í skóla, þetta er misjafnt.“