Lokað var fyrir bílaumferð inn að gossvæðinu í Geldingadölum austur í Fagradalsfjalli klukkan 18. Talsverður fjöldi hefur lagt leið sína suður með sjó í dag og hefur allt gengið að óskum að sögn Bjarneyjar Annelsdóttur yfirlögregluþjóns.
Fólk var farið að streyma að gosstöðvunum fyrir klukkan sex í morgun þegar svæðið var opnað og nýttu margir sér rútuferðir frá Grindavík að gönguleiðinni.
Bjarney segir að lokunin hafi gengið vel.
„Það streymdi hratt að milli fimm og sex svo það er töluverður fjöldi á svæðinu núna. Ég held að þetta sé svipað og hefur verið, kannski eitthvað aðeins minna,“ segir Bjarney.
Aðstæður á svæðinu hafa verið með fínasta móti í dag og enn engin óhöpp orðið. Þá hefur gengið vel að dreifa umferð fólks og ökutækja á svæðið yfir daginn.
„Við lærum af reynslunni. Þetta er svipaður bílafjöldi og í gær og fyrradag en það náðist betri dreifing, umferðin er jafnari yfir daginn. Það hafa allir verið til fyrirmyndar,“ segir Bjarney.