Haukur Logi Karlsson, formaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, segir að auka kostnaður vegna veru á sóttkvíarhóteli sé verulega íþyngjandi fyrir hóp íslenskra námsmanna sem eru við nám erlendis.
SÍNE kallar eftir að stjórnvöld miði verðskrána á sóttkvíarhótelum við hversu brýnt ferðalagið telst og hvort ætla megi að viðkomandi standi auðveldlega undir þeirri upphæð sem rukkuð er.
Sóttkvíarhótel opnaði í Reykjavík í dag en gjaldtaka hefst ekki fyrr en 11. apríl næstkomandi. Þá mun nóttin kosta 10.000 krónur og þarf fólk að dvelja í það minnsta fimm nætur á hótelinu. Aðeins þeir sem koma af skilgreindum áhættusvæðum þurfa að dvelja á hótelinu en margir námsmenn eru einmitt við nám á þessum svæðum.
Kostnaðurinn myndi leggjast ofan á kostnað við öflun á PCR-vottorði sem kostar á bilinu 15 til 45 þúsund krónur á mann. Við það bætast að minnsta kosti 50 þúsund krónur fyrir veruna á hótelinu og því viðbótarkostnaður tæpar 100 þúsund krónur á mann.
„Okkar hópur námsmanna erlendis, sem hefur ekkert voðalega mikið á milli handanna, þarf að komast aftur heim að námi loknu eðli málsins samkvæmt. Þeirra ferðalög heim ættu því að teljast nauðsynleg,“ segir Haukur.
Hann segir að sambandið skilji vel að gripið hafi verið til hertra aðgerða á landamærunum en að þessi aukakostnaður komi illa við námsmenn sem oft hafa ekki mikið á milli handanna.
„Okkur finnst ekkert eðlilegt að til dæmis okkar umbjóðendur séu að borga sama gjald og þeir sem eru að koma hingað til lands í hreinar skemmtiferðir,“ segir Haukur. Hann segir að þeim sé ljóst að ríkið muni niðurgreiða kostnaðinn við þessi hótel að einhverju leyti og eðlilegt væri að sú niðurgreiðsla renni til þeirra sem eru í brýnum erindagjörðum og hafa ekki mikið á milli handanna.
SÍNE leggur til að námsmönnum verði veittur sérstakur ferðastyrkur eða að Menntasjóður námsmanna veiti aukið ferðalán.