Andlát: Margrét Jóna Ísleifsdóttir

Marfrét Jóna Ísleifsdóttir.
Marfrét Jóna Ísleifsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Jóna Ísleifsdóttir, fv. tryggingarfulltrúi hjá sýslumannsembættinu í Rangárvallasýslu, lést á Hvolsvelli 30. mars síðastliðinn, á 97. aldursári.

Margrét fæddist í Miðkoti í Fljótshlíð 8. október 1924, eitt sjö barna foreldra sinna, Ingibjargar Kristjánsdóttur og Ísleifs Sveinssonar.

Margrét stundaði nám við Barnaskóla Fljótshlíðar og Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Hún flutti á Hvolsvöll sautján ára gömul og bjó þar óslitið síðan. Hún var einn af frumbyggjum Hvolsvallar og hafði búið í húsi sínu við Hvolsveg í 75 ár.

Margrét sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 2019 að Hvolsvöllur hefði ekki heillað í fyrstu enda aðeins þrjú íbúðarhús þar. En eftir því sem störfum fjölgaði hefðu æ fleiri íbúðarhús verið byggð og eitt leitt af öðru.

„Nýtt ungt fólk bættist í hópinn og íbúarnir voru eins og ein góð fjölskylda lengi fram eftir. Ef eitthvað skemmtilegt átti sér stað voru allir glaðir og ef eitthvað dapurlegt gerðist tóku allir þátt í því,“ sagði Margrét í viðtalinu

Margrét var mikil félagsmálakona. Hún var um tíma formaður Kvenfélagsins Einingar á Hvolsvelli og heiðursfélagi þess. Hún sat í fyrstu stjórn félagsheimilisins Hvols og stýrði ungmennastarfi barnastúkunnar Njálu.

Margrét söng með kirkjukór Stórólfshvolskirkju og sá um kirkjuna um árabil. Hún tók með einum eða öðrum hætti þátt í uppbyggingu þorpsins og samfélagsins á Hvolsvelli. Hennar helsta áhugamál var lestur góðra bóka og hannyrðir auk þess sem hún sinnti fjölskyldu sinni af alúð alla tíð.

Margrét var gift Pálma Eyjólfssyni sýslufulltrúa og eru börn þeirra Guðríður Björk, fv. verslunar- og skrifstofumaður, Ingibjörg, fv. alþingismaður og ráðherra, og Ísólfur Gylfi, fv. sveitarstjóri og alþingismaður. Margrét lætur eftir sig fjölda afkomenda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert