Beinni útsendingu morgunþáttar K100, Ísland vaknar, frá eldgosinu í Geldingadölum var vel tekið í gærmorgun. Jón Axel, Kristín Sif og Ásgeir Páll voru í loftinu frá kl. 7 til 9, bæði í hljóð og mynd, með glóandi hraunið og gígana í bakgrunni.
Þetta mun hafa verið í fyrsta sinn hér á landi, og þótt víðar væri leitað, sem heill útvarpsþáttur er sendur út í beinni frá gosstöðvum.
Á meðan þátturinn var í loftinu eldaði Völundur Snær morgunverð ofan í mannskapinn og Ellý Ármanns málaði á striga myndir af gosinu fyrir framan hana. Myndirnar seldi hún svo til stuðnings björgunarsveitunum.