Pakistönsk skyldmenni nýfædds íslensks barns fá ekki að koma hingað til lands til að heimsækja barnið og fjölskylduna. Ástæðan er sú að vegna upprunalandsins eru þau talin í hættu á að virða ekki tímamörk vegabréfsáritunar og gerast ólöglegir innflytjendur.
Ásdís Virk Sigtryggsdóttir, móðir barnsins, vekur athygli á þessu í færslu á Facebook. Ásdís er gift Usman Virk, sem er frá Pakistan, en í nóvember eignuðust þau hjón dótturina Hadiu Helgu.
Í samtali við mbl.is segir Ásdís að móðir Usmans og systkini hafi vitanlega viljað koma til landsins og fá að hitta nýja barnabarnið og kynnast lífi fjölskyldunnar á Íslandi. Upphófst þá mikið ferli til að sækja um vegabréfsáritun. Kaupa þurfti sjúkratryggingu á Íslandi auk þess sem Ásdís og Usman þurftu að ábyrgjast að standa straum af kostnaði við dvöl í landinu ef fjölskyldan frá Pakistan gæti það ekki.
Allt kom þó fyrir ekki og fjölskyldan fékk þau svör að þar sem Pakistan væri í tilteknum flokki landa fengju þau ekki vegabréfsáritun nema lífið lægi við. Ekkert sé litið til persónulegra aðstæðna, en Ásdís bendir á að tengdamamma hennar sé í umönnunarhlutverki fyrir veikan eiginmann sinn, sem er of veikur til að ferðast. Engar líkur séu á að hún myndi ekki snúa aftur til Pakistans til að annast hann.
Umsóknir um vegabréfsáritanir Pakistana til Íslands fara fram í gegnum sendiráð Danmerkur í landinu, en íslensk stjórnvöld fela jafnan sendiráðum annarra Norðurlandaþjóða þessi verkefni í þeim löndum þar sem ekkert íslenskt sendiráð er.
Ásdís segir það umhugsunarefni að dönsk löggjöf ráði því hver fær að koma til Íslands, einkum í ljósi þess að útlendingalöggjöf í landinu er með þeim ströngustu í Evrópu.
Fjölskyldan hyggst leita til Útlendingastofnunar á Íslandi og óska eftir að ákvörðun danska sendiráðsins í Pakistan verði snúið. Aðspurð segist Ásdís ekki vita hvaða niðurstöðu er að vænta þaðan en vonar það besta.