Hryssa sem fékk raflost verður bætt

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Héraðsdómur Suðurlands hefur úrskurðað að Rarik ohf. og tryggingafélag þess, TM, beri óskipta skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð þegar rafmagnsstaur Rariks í landi Laugarbakka í Ölfusi brotnaði og féll til jarðar með þeim afleiðingum að hryssan Bryðja drapst.

Atvikið átti sér stað í apríl 2018. Um eins metra hár rafmagnsstaur féll þá til jarðar en rafmagn sló ekki út og var því töluverð hætta á ferðum eins og starfsmaður Rariks lýsti í lögregluskýrslu. Þegar eigendur hryssunnar komu að henni var hún dauð og með brunasár í kjafti. Bentu lýsingar dýralæknis til þess að hún hefði bitið í línuna og fengið raflost.

Rarik hafnaði skaðabótaábyrgð á þeim forsendum að grundvallarregla í íslenskum skaðabótarétti sé að tjónþoli verði að sýna fram á að tjónið hafi orðið með saknæmum eða ólögmætum hætti. Ekkert lægi fyrir í málinu um vanrækslu á viðhaldi dreifikerfisins.

Í dómi er vísað í raforkulög sem meðal annars kveða á um að raforkuvirki séu tryggð með þeim hætti að menn og dýr séu varin gegn hættu sem stafar af. Ótvírætt væri að fall háspennulínunnar hefði haft í för með sér stórkostlega hættu fyrir menn og dýr.

Rarik og TM var gert að greiða eigendum hryssunnar, þeim Kristni Valdimarssyni og Janusi Halldóri Eiríkssyni, tvær milljónir í málskostnað auk þess sem skaðabótaábyrgð þeirra var sem fyrr segir viðurkennd og munu eigendur því fá hryssuna bætta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert