Ingi kveður Verslunarskólann

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskóla Íslands, lætur brátt af störfum við …
Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskóla Íslands, lætur brátt af störfum við Verslunarskóla Íslands, þar sem hann er að fara á eftirlaun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Staða skólastjóra Verslunarskóla Íslands hefur nú verið auglýst laus til umsóknar. Ingi Ólafsson skólastjóri fer brátt á eftirlaun og kveður skólann að sinni eftir 14 ár í starfi skólastjóra. 

„Ég verð löggilt gamalmenni í lok þessa árs,“ segir hann léttur í bragði þegar mbl.is sló á þráðinn til hans. Hann tilkynnti skólanefnd starfslokin fyrir allnokkru. 

Stytting framhaldsskólanna mesta breytingin 

Ingi á langan feril að baki innan veggja skólans; hann byrjaði haustið 1989 sem kennari við Verslunarskólann, varð aðstoðarskólastjóri árið 2000 og loks skólastjóri árið 2007, en nú er hann kominn á eftirlaun. 

„Það er bara búið að vera einstaklega gaman að starfa hjá svona menntastofnun og að vinna með ungu fólki er alveg dásamlegt. Það hafa orðið miklar breytingar í framhaldsskólum, skólinn er stofnun sem er sífellt að breytast,“ segir hann. 

Sveitasælan tekur við 

Mesta breytingin var þó stytting framhaldsskólanna, úr fjórum í þrjú ár, sem hann var í fyrstu efins um. 

„Ég hef nú stundum orðað það þannig að þegar ég fékk þau skilaboð frá skólanefndinni að það þyrfti að skoða þau mál hafði ég í byrjun allt á hornum mér en þegar ég fór að skoða málið féllst ég á að þetta væri ekkert mál,“ segir hann.

Hvað tekur næst við?

Það er bara að njóta þess að vera í sveitinni. Já og kannski bara fara eitthvað út. Það er nóg að gera hér í sveitinni þar sem við erum með afdrep og hesta,“ segir hann en fjölskyldan hefur afnot af sveitabæ á Snæfellsnesi. „Það verður sveitasælan, það er alveg á hreinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka