Brotist var inn í íbúð í miðborg Reykjavíkur í nótt. Ýmsum munum á borð við veski og bíllyklum var stolið og þegar heimilismenn vöknuðu var bíllinn þeirra á bak og burt. Bíllinn fannst síðan fjórum klukkustundum síðar mannlaus í Breiðholti. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Einnig var brotist inn í geymslur í fjölbýlishúsi í Grafarvogi en ekki er vitað hverju var stolið þaðan.
Um kvöldmatarleyti í gær var maður handtekinn í Árbænum, en hann er grunaður um eignaspjöll og mun hann hafa verið í annarlegu ástandi þegar lögregla hafði hendur í hári hans.
Flest útköll lögreglu í nótt komu til vegna ökumanna, sem grunaðir eru um ölvun við akstur. Einn var handtekinn í Laugardal vegna þess, annar í miðbænum, sá þriðji í Hlíðum og fjórði í Hafnarfirði. Þá var 17 ára ökumaður stöðvaður eftir að hafa keyrt á 110 kílómetra hraða á Miklubraut þar sem hámarkshraði er 80. Verður málið kynnt foreldrum og barnavernd.