Vistmaður á Litla-Hrauni fannst látinn í klefa sínum í morgun. Þetta staðfestir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í samtali við mbl.is. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
„Ég get staðfest að vistmaður fannst látinn í klefa sínum í morgun. Það er ekkert sem bendir til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. Lögregla rannsakar þetta mál eins og önnur slík,“ segir Páll.
Búið er að hafa samband við fjölskyldu hins látna og kalla út sálfræðing og prest.
„Þetta er auðvitað mikill harmur meðal allra sem málið varðar á staðnum, bæði meðal vistmanna og starfsmanna, og við höfum virkjað viðbragðsáætlun sem á við í þessum tilvikum,“ bætir Páll við.