Norðri gefur í

Norðri virðist vera að gefa í á meðan Suðri er …
Norðri virðist vera að gefa í á meðan Suðri er spakari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norðri, nyrðri gígurinn á eldstöðvunum í Geldingadölum, virðist hafa gefið aðeins í að mati eldfjalla- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands. Aftur á móti hefur dregið úr Suðra, syðri gígnum, en hann puðrar samt áfram. Lítil breyting hefur orðið á hraunflæðinu í dölunum.

Kvikan streymir stöðugt upp og eitthvað af hraunkviku virðist vera að safnast fyrir norðaustan Norðra og af og til virðist sjóða staðbundið upp úr þessum polli. 

„Norðri hefur gefið aðeins í og einkennist virknin af sveiflukenndu sígosi sem viðheldur 10-15 m hárri kvikustrókanefnu. Töluvert magn af kvikustróka-slettunum frá honum fellur í og sameinast hraunstraumnum sem vellur út úr gígnum. Þetta endar kannski með að flæðið frá Norðra breytist í fallegt kvikustrókahraun!“ segir í facebookfærslu hópsins. 

Eitthvað virðist hafa dregið úr Suðra þótt hann haldi áfram að spýta hraunkviku upp. „Hraunkvikan stendur hátt í honum, gosopið virðist hafa þrengst og barmarnir hækkað. Þetta er dæmigert fyrir aflminni virkni (suðu), sem drifið er áfram af einstökum blöðrusprengingum og kastar slettunum einungis upp á veggina umhverfis gígopið, og við það hækka veggirnir hraðar en ella.“

Enn virðist enginn samgangur vera með gígunum, að minnsta kosti ekki í allra efsta hluta gosrásarinnar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert