Páskahretið er tímanlega þetta árið, segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is. Von er á hvassri norðanátt yfir landið seinni part laugardags með frosti um allt land og gæti snjóað víða um land.
Veðrið verður heldur skárra fyrri hluta páskahelgarinnar. Í dag, skírdag, verður veður meinlaust, lítill vindur en skýjað og hugsanlega smá væta vestan til. Bjart fyrir austan. Hiti 5 til 12 stig.
Á morgun hvessir heldur fyrir norðan en áfram verður milt sunnan til. Hiti verður á bilinu 5 til 10 stig. Hlýjast suðaustanlands. Léttskýjað austan til en annars skýjað og sums staðar dálítil væta.
Spurður hvert eigi að fara til að elta veðrið um páskana segir Birgir að sennilega verði besta veðrið fram á laugardag fyrir austan. Á páskadag verði þó orðið leiðinlega hvasst þar. „Það er útlit fyrir að það verði þokkalega kalt fram eftir næstu viku. En ég veit nú ekki hvort það er það sem fólk vill heyra,“ segir hann.