Nú er ljóst að yfirstandandi vetur verður ekki sá snjóléttasti í Reykjavík í þau 100 ár sem mælingar hafa staðið yfir. Um tíma leit út fyrir að metið gæti fallið en svo fór ekki.
Alhvítir dagar í Reykjavík hafa verið fimm í mars til þessa og alhvítir dagar frá því í haust því 11, einum fleiri en veturinn 1976 til 1977, segir Trausti Jónsson veðurfræðingur. Og hann bætir við að enn sé apríl eftir en meðalfjöldi alhvítra daga í þeim mánuði er þrír.
Svokallaður veðurstofuvetur endar með mars, þ.e. í dag, en íslenski veturinn með síðasta vetrardegi. Snjóuppgjör ná alveg til sumars, þannig að ef hvítur dagur mælist í maí telst hann með vetrinum á undan, bætir Trausti við. Síðast að vori varð alhvítt 16. maí samkvæmt mælingum, en flekkótt jörð var einu sinni talin vera 28. maí.
Mælingar á snjóhulu og snjódýpt hófust 25. janúar 1921 í Reykjavík, eða fyrir rúmlega einni öld. Á tímabilinu hefur snjóhula nær allan tímann verið metin kl. 9 að morgni, segir Trausti í pistli á Moggablogginu. Nú er miðað við að tún Veðurstofunnar við Bústaðaveg sé alhvítt að morgni. Alhvítu dagarnir voru flestir í Reykjavík veturinn 1983 til 1984, 105 talsins, næstflestir voru þeir 1988 til 1989, 103. Má af þessum tölum sjá hve snjónum getur verið misskipt milli ára.
Á þessari öld voru þeir flestir veturinn 2014 til 2015, 75, en fæstir 2009 til 2010, 16. „Við eigum sum sé enn möguleika á að verða undir þeirri tölu – þó við náum ekki vetrinum 1976 til 1977,“ segir Trausti.
Vetraruppgjörið er ekki alveg tilbúið, en þó er hægt að segja að vetrarhiti (desember til mars) í Reykjavík sé nærri meðallagi miðað við síðustu tíu ár og rétt yfir meðallagi síðustu 30 ára, segir Trausti. Mars, sem nú kveður, hefur verið hlýr en þó ekkert nærri metum. Kuldakaflinn að undanförnu hafi auðvitað dregið hitann aðeins niður. Í Reykjavík er marshitinn nú í 7. hlýjasta sæti á öldinni (af 21), en var lengi í því 3. til 5. „Veturinn hefur verið höfuðborgarbúum hagstæður í heildina – held ég að megi segja,“ bætir Trausti við að síðustu.
Vegna páskahátíðarinnar kann að verða einhver bið á því að Veðurstofan birti tíðarfarsyfirlitið fyrir mars. Í febrúaryfirlitinu kom fram að meðalhiti í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins 2021 var 1,1 stig sem er 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en jafn meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 25. sæti á lista 151 árs. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tveggja -1,3 stig. Það er -0,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 58. sæti á lista 141 árs.