Tryggja mönnun yfir páskana

Barnaspítali Hringsins.
Barnaspítali Hringsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldinn sem starfsfólk Covid-deildar Landspítalans og barnaspítala Hringsins hefur eftirlit með eykst dag frá degi, í takti við fjölgun greindra. Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-deildarinnar, óttast bylgju veikinda vegna breska afbrigðisins. Brugðist er við þessu með meiri mönnun deildarinnar um páskana en venja er.

Í gær voru 113 Covid-smitaðir í eftirliti hjá starfsfólki Covid-deildarinnar og barnaspítalans og einn sjúklingur var á almennri legudeild. Í þessum hópi eru 79 fullorðnir og 34 börn, allir með lítil einkenni nema einn sem var með meðalslæm einkenni.

Sjúklingarnir eru heima hjá sér og eftirlitið fer fram símleiðis nema hvað einn til tveir eru kallaðir inn til skoðunar á hverjum degi. „Staðan er því ágæt að þessu leyti. Af því að margir eru með breska afbrigði veirunnar getum við átt von á breytingum, að hærra hlutfall greindra veikist meira. Þess vegna erum við með viðbragð um páskana og höfum tryggt betri mönnun,“ segir Runólfur. Unnið verður að þessum málum um páskana, eftirliti sinnt og fólk kallað inn til skoðunar alla daga. Þá segir Runólfur að spítalinn sé í viðbragðsstöðu, ef álagið skyldi aukast.

Spurður hvort breska afbrigðið leiði til minni veikinda hér en reynslan sýnir í nágrannalöndunum segir Runólfur of snemmt að segja til um það. Alvarleg veikindi geti komið upp viku eftir að fólk fær veiruna og bendir hann á að margir hafi greinst að undanförnu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert