Baðbombur þreyttu píslarsund

Kátar Baðbombur í páskabaðinu.
Kátar Baðbombur í páskabaðinu. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Píslarsund var þreytt á Langanesi í dag, á föstudaginn langa, þegar sundhópurinn Baðbomburnar skellti sér í sjósund.

Veðurguðir skörtuðu sínu fegursta, að því er fréttaritari mbl.is á Þórshöfn, Líney Sigurðardóttir, greinir frá. 

Gott sjóveður var líka á skírdag og þá var líka farið í sjóinn, hitastig hans var 3,3 stig og lofthiti 5,5 sem þykir nokkuð gott. Páskabaðið var hressandi þótt ekki sé svamlað lengi í sjó á þessum árstíma en allt upp í hálftíma í svona góðu veðri.

Hrafngerður Ösp Elíasdóttir er ein af Baðbombunum á Þórshöfn og …
Hrafngerður Ösp Elíasdóttir er ein af Baðbombunum á Þórshöfn og mælir hún samviskusamlega hitastig sjávar og lofts í hverri sjóferð. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Ein baðboman er sérlegur skrásetjari og byrjar alltaf á að skrá hitastig sjávar ásamt lofthita, dagsetningu og hve margar hafmeyjar mæta á svæðið.

Flestar í Baðbombuhópnum eru búnar að koma sér upp forláta ullarkuflum, sem eru það rúmgóðir að hægt er að afklæðast blautum sundbolum undir þeim en ekki er um klefa eða búningaaðstöðu að ræða þarna úti við ysta haf.

Íslenska ullin er notaleg eftir kalda baðið og sérhannaðir kuflar …
Íslenska ullin er notaleg eftir kalda baðið og sérhannaðir kuflar úr ull eru vinsælir hjá Baðbombunum á Þórshöfn. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert