Fjölskyldurnar veiða í hópum

Í Skutulsfirði í morgun.
Í Skutulsfirði í morgun. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

„Þetta er ekkert óvenjulegt þannig nema þeir fari alveg inn í höfn. Háhyrningar eiga það til að fara alveg upp í fjörugrjótið ef þeir eru á eftir æðarfugli eða sel jafnvel. Þá fara þeir oft alveg upp að ströndinni í svoleiðis eltingaleik,“ segir Gísli Arnór Víkingsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, í samtali við mbl.is.

Umræðuefnið er hjörð háhyrninga, að minnsta kosti fimm dýra, sem synti í Pollinum í Skutulsfirði í dag og vakti athygli margra og jafnvel ótta sumra. Tugum bíla var lagt við hafnarbakkann þar sem fólk fylgdist með háhyrningunum og þar voru sjónaukar og myndavélar á lofti.

„Þeir eru í fjölskylduhópum og geta verið allt upp í 20 til 30 dýr. Stundum eru þau í minni hópum, kannski 5-7, og þá eru meiri líkur á að þetta séu fugla- og spendýraætur. Það virðist vera almenna reglan að stærri hóparnir séu fiskætur en svo eru aðrar hjarðir sem einbeita sér að fuglum, selum og jafnvel hvölum,“ útskýrir Gísli og bætir við: 

Háhyrningar á ferðinni í morgun.
Háhyrningar á ferðinni í morgun. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

„Hjá háhyrningum í Kyrrahafinu, þar sem flestar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis, er þetta alveg skýrt og klárt að hver hópur er annaðhvort fiskiæta eða spendýraæta. Sumar fjölskyldur eða hjarðir éta þá einungis fisk en aðrar eru sérhæfðar í að éta sjávarspendýr eins og hvali, seli og fugla.“

Gísli segir engan vita nákvæmlega af hverju þetta skiptist svona heldur sé þetta hluti af þróuninni. Það séu þau dæmi um að háhyrningar, sem þekkjast á ljósmyndum, og hafa verið við Íslandsstrendur að veiða síld, hafi einnig sést við strendur Skotlands þar sem þeir voru að elta hvali og seli.

Ráðist sjaldan á menn í náttúrunni

Þó svo að háhyrningar veiði í hópum og séu meðal öflugustu rándýra hafsins segist Gísli ekki þekkja nein dæmi um að þeir hafi ráðist á fólk í náttúrunni.

„Það eru þekkt dæmi í sundlaugum þar sem þeir eru í haldi og hafa drepið þjálfara sína. En selur og maður eru kannski ekki endilega svo ólíkir þegar komið er í sjóinn. Ég myndi ekkert mæla með því að menn séu að synda með þeim,“ segir Gísli að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert