Fjórum einstaklingum sem áttu að vera í sóttkví var vísað frá gosstöðvunum í gær af lögreglu, að sögn Sigurðar Bergmanns, aðalvarðstjóra í Grindavík.
Fyrir nokkrum dögum hóf lögreglan á Suðurnesjum eftirlit með öllum þeim sem koma inn á svæðið til að ganga úr skugga um að enginn væri að brjóta gegn reglum um sóttkví.
„Við stoppum alla bíla sem eru að koma inn á svæðið og tökum spjallið við fólk og ef um er að ræða erlenda ferðamenn þá eru þeir spurðir hvenær þeir komu til landsins og hvort þeir ættu að vera í sóttkví. Og ef svo er, eins og var í þessu tilfelli, þá er þeim bara góðfúslega bent á að fara aftur í sóttkvína,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.
Að sögn Sigurðar tók fólkið mjög vel í tilmæli lögreglu um að yfirgefa gossvæðið. Hann hafði ekki upplýsingar um það hvort aðilarnir fjórir sem brutu sóttkví í gær væru tengdir en honum þótti það þó líklegt.
Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, sagði við mbl.is fyrr í dag að fjórum hefði verið vísað frá svæðinu í fyrradag.
Aðspurður segir Sigurður eftirlitið ekki valda neinum töfum.
„Við erum hvort sem er að stoppa alla bíla til afhenda fólki svokallaða „safe travel“-miða þar sem fólk skrifar símanúmer og engar aðrar upplýsingar, setur í mælaborðið eða undir þurrkublöðin á bílnum. Þannig að ef bílarnir verða eftir þá getum við hringt í símanúmerið og athugað hvort viðkomandi hafi farið með öðrum hætti af gossvæðinu eða hvort viðkomandi sé jafnvel enn þá uppi á fjalli,“ segir Sigurður.
Sigurður segir að „bullandi aðsókn“ hafi verið á svæðið það sem af er degi enda sé veðrið svo gott í dag og betra en það var í gær.