Í dag, 14 dögum eftir að gos hófst í Geldingadölum, fá björgunarsveitarmenn Þorbjarnar í Grindavík loks að vera heima.
„Það er nóg af sveitum til þess að sinna svæðinu með okkur. Þá getum við kannski gefið okkur nokkrar mínútur heima,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar, í samtali við mbl.is og bætir við:
„En ef það er útkall eða eitthvað svoleiðis þá náttúrulega sinnum við því.“
Bogi segir þó að alltaf séu einhverjir björgunarsveitarmenn á ferðinni við gossvæðið og búið sé að fylla upp í vaktaplanið.
„Hinir félagar okkar á landinu eru búnir að skrá sig á vaktir í kringum gosstöðvarnar. Það eru alltaf einhverjar sveitir á ferðinni þó svo við séum ekki hverja mínútu niðri í húsinu. Það er alltaf einhver á svæðinu.“
Að sögn Boga gekk gærdagurinn vel við gosstöðvarnar. „Það var alveg traffík en ég held það hafi verið passlegt flæði.“
Einhverjir hafi þá slasast á gossvæðinu og þurft aðstoð niður en enginn hafi hlotið alvarleg meiðsli að sögn Boga.
Bogi segir örtröðina inn á bílastæðin hafa minnkað og telur hann að rútuferðirnar hafi þar spilað inn í.
„Vonandi er búið að ná smá böndum yfir þetta. Flæðið er svipað en alla vega er rútutraffík og stærðin á bílastæðinu er alveg að halda utan um þetta enn þá,“ segir Bogi.